Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið.  Ljósm.  Smári GeirssonElín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári Geirsson
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. fimmtudag var samþykkt að færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf en vélin kostar 3,4 milljónir króna. Á starfsmannafundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær afhenti Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Jóni Sen yfirlækni gjöfina. Jón þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf og sagði að hin nýja þvottavél væri bæði einföld í notkun og fljótvirk og hún myndi gera það að verkum að speglunartæki sjúkrahússins myndu nýtast mun betur en hingað til.
 
Eins og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni var í lok árs 2014 undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu þeim að kostnaðarlausu. Við undirritun samningsins færði Síldarvinnslan sjúkrahúsinu ristilspeglunartæki að gjöf og hafði sjúkrahúsið þá yfir tveimur slíkum tækjum að ráða. Þessi tæki nýttust ekki eins vel og æskilegt hefði verið því langan tíma tók að þvo búnaðinn á milli speglana. Hin nýja þvottavél mun bæta þarna úr og munu afköst við ristilspeglanir geta aukist verulega með tilkomu hennar.