Í tilefni af því að Síldarvinnslan varð 60 ára á þessu ári hafa birst pistlar um sögu fyrirtækisins hér á heimasíðunni. Hér verða birt nokkur sögubrot til viðbótar við þau sem áður hafa komið fyrir sjónir lesenda.
- Í lok síldarvertíðar í nóvember 1988 fagnaði starfsfólk Síldarvinnslunnar því að fryst hefðu verið 1000 tonn af síld á Japansmarkað á vertíðinni. Þetta þóttu merk tímamót og í ávarpi, sem Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri hélt í glæsilegri kaffiveislu sem haldin var í frystihúsinu af þessu tilefni, kom fram að þetta væri mesta magn síldar sem nokkurt frystihús hefði fryst á Japansmarkað. Upplýsti Finnbogi að hátt í þrjár milljónir sílda hefðu farið um hendur starfsfólks frystihússins við þessa frystingu. Þetta leiðir hugann að þeim breytingum sem hafa orðið á frystingu á uppsjávarfiski á síðari árum. Með tilkomu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar árið 1997 jukust afköst við frystingu gífurlega og allt fram á þennan dag hafa afköstin í verinu verið aukin jafnt og þétt. Ef ætti að efna til veislu í hvert sinn sem 1000 tonn af síld væru framleidd í fiskiðjuverinu nú þyrfti að halda upp á það annan hvern dag ef um framleiðslu á heilfrystri síld væri að ræða og þriðja hvern dag ef um flakaframleiðslu væri að ræða.
- Á árinu 1988 var Síldarvinnslan eitt fárra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu sem skilaði hagnaði. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Fram kom að heildarvelta Síldarvinnslunnar á árinu hafði verið 1.920 milljónir og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 302 milljónir. Afskriftirnar námu 90 milljónum en fjármagnskostnaður 201 milljón ! Fjármagnskostnaðurinn kom til vegna uppsafnaðra skulda frá fyrri tíð og þá ekki síst vegna lána sem tekin voru í tengslum við uppbyggingu í kjölfar snjóflóðanna 1974. Heildarskuldir fyrirtækisins á þessum tíma námu 1.250 milljónum króna og uppsafnað tap 530 milljónum. Miðað við svipaða afkomu og á árinu 1988 þurfti 50 ár til að koma fyrirtækinu á græna grein efnahagslega að mati þáverandi framkvæmdastjóra.
- Starsmenn Síldarvinnslunnar á árinu 1989 voru að meðaltali 420 talsins. Þeir voru fleiri þegar mest var um að vera en færri þegar minna var umleikis. Um vorið var starfsmönnum og mökum þeirra boðið til matarveislu og dansleiks í félagsheimilinu Egilsbúð. Þrískipta þurfti gleðskapnum því alls var 700 manns boðið. Fyrst voru það starfsmenn Dráttarbrautarinnar og fiskimjölsverksmiðjunnar ásamt áhöfnum loðnuskipa og löndunargengi sem skemmtu sér ásamt mökum, síðan kom röðin að starfsfólki skrifstofu, saltfiskverkunar og frystihúss og loks voru það togarasjómenn og þeir trillukarlar sem lögðu upp afla hjá Síldarvinnslunni.
- Áður fyrr lögðu margir smábátar upp afla hjá Síldarvinnslunni. Smábátaútgerðin var misjafnlega mikil, stundum blómstraði hún en á öðrum tímum var hún í lægð. Á síldarárunum svonefndu voru til dæmis fáar trillur gerðar út frá Neskaupstað en að þeim loknum fór þeim fjölgandi. Líklega hafa aldrei jafn margir smábátar verið gerðir út og undir lok níunda áratugar síðustu aldar, en sumarið 1989 var talið að um 120 smábátar reru frá Neskaupstað og þá hafði þeim fjölgað um 20 frá árinu áður. Þegar þarna var komið sögu dugði smábátahöfnin engan veginn fyrir allan þennan fjölda báta og var því ráðist í stækkun hennar. Þess skal getið að smábátaaflinn sem barst á land í Neskaupstað árið 1989 nam um 4.000 tonnum.