Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hjá Gullberg ehf. á Seyðisfirði hefur gengið vel það sem af er ári og nú annað árið í röð stefnir í metframleiðslu hjá starfsmönnum þar.  Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið unnin 2.700 tonn sem er aukning um 200 tonn  á milli ára. Til samanburðar þá var aðeins unnið úr 1.300 tonnum árið 2014 á Seyðisfirði og því er um að ræða rúmlega tvöföldun á magni frá þeim tíma.
 
Sömu sögu er að segja af togaranum Gullver NS en hann hefur veitt 3.250 tonn á fyrstu 9 mánuðum ársins til samanburðar við 3.000 tonn árið áður. Þrátt fyrir að meiri afli fari í gegnum húsið og togarinn fiski meira þá hafa tekjur fyrirtækisins minnkað á milli ára. Togarinn, sem fiskað hefur 250 tonnum meira á þessu ári en árið áður, er með 70 milljóna kr minna aflaverðmæti. Segja má að samdrátturinn í aflaverðmæti endurspegli í raun þá breytingu sem hefur verið að eiga sér stað í rekstrarumhverfi Gullbergs ehf. Þannig hefur afurðaverð bolfisks verið að gefa töluvert eftir í erlendri mynt og síðan bætist styrking krónunnar þar við. Þrátt fyrir aukningu á unnu magni þá hefur afkoman dregist saman. Þannig var rekstrarhagnaður fyrstu sex mánuði sl. árs 218 milljónir króna en í ár er hann einungis 120 milljónir.
 
Gullver NS hefur í áratugi skapað sér sérstöðu á karfamörkuðum í Þýskalandi fyrir afhendingaröryggi og gæði hráefnis. Við lokun Rússlandsmarkaðar, sem hafði tekið við 7.000 tonnum af karfa árið 2014, fór karfi að streyma í auknu magni til Þýskalands og annara landa. Nú á þessu ári hefur magnið aukist um 40% miðað við sama tíma í fyrra og verðið lækkað um 30% í krónum talið.  Einnig hefur Rússabannið breytt veiðistýringu flotans í karfa. Afli ísfisktogara hefur aukist um 20% en afli frystitogara aftur á móti dregist saman.