Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Ómar Valgarðsson

Ómar Valgarðsson er verksmiðjustjóri hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá á Akureyri. Laxá hefur lengi verið stærsti framleiðandi fiskeldisfóðurs á Íslandi og festi Síldarvinnslan kaup á verksmiðjunni árið 2002. Ómar hefur starfað hjá Laxá í 35 ár og þar af sem verksmiðjustjóri í 25 ár. Hann þekkir því sögu verksmiðjunnar afar vel. „Verksmiðjan var nýlega byggð þegar ég kom til starfa og það hafði verið mikið um byrjunarörðugleika sem ollu verulegum erfiðleikum við framleiðsluna. Verksmiðjan var tölvukeyrð og nýmóðins og því fylgdu ýmis vandamál sem þurfti að leysa. Með tímanum náðust góð tök á framleiðslunni og starfsfólk náði að stilla vel saman strengi sína. Á árunum fyrir 1990 var töluvert af framleiðslunni flutt út. Þá var selt til Noregs og Færeyja. Á þeim tíma var unnið á þremur vöktum og náði þá ársframleiðslan allt að 10.000 tonnum. Nú er verksmiðjan hins vegar að framleiða um 12.000 tonn á ári og er unnið á tveimur átta tíma vöktum. Starfsfólk verksmiðjunnar er nú 10 til 11 talsins. Framleitt er fyrir landeldi innanlands og eins er seiðastöðvum þjónað. Áður var reyndar einnig framleitt fóður fyrir sjóeldi. Þá ber að nefna að Laxá hefur flutt inn fóður fyrir seiðaeldi. Mikil þróun hefur átt sér stað á sviði fóðurframleiðslunnar og ánægjulegt og áhugavert að fá að taka þátt í þróunarstarfinu og upplifa breytingarnar. Ég er í raun búinn að upplifa miklar sveiflur í fiskeldinu hér á landi. Ég hef upplifað fiskeldisævintýri eitt og tvö og nú er fiskeldisævintýri þrjú hafið. Fiskeldið er grein sem hefur hingað til verið afar sveiflukennd en vonandi verður hún stöðug og sterk í framtíðinni,“ segir Ómar.