Gunnþór B. Ingvason forstjóri og forseti Íslands á minninga – og sögureit Síldarvinnslunnar. Ljósm. Smári Geirsson

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, er þessa dagana í heimsókn í Fjarðabyggð. Í gær var hann ásamt fylgdarliði í Neskaupstað og kynnti sér meðal annars starfsemi Síldarvinnslunnar. Heimsóknin til Síldarvinnslunnar hófst á minninga- og sögureitnum á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar, en hann var vígður í ágúst á síðasta ári og er helgaður þeim sem látið hafa lífið í störfum hjá Síldarvinnslunni. Síðan var haldið inn á höfn þar sem farið var um borð í uppsjávarskipið Beiti NK. Beitir hafði nýlokið við að landa fullfermi af kolmunna í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins.

Í Beiti fór Gunnþór B. Ingvason forstjóri yfir sögu fyrirtækisins og eins fræddi Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, forsetann um uppsjávarveiðar og skoðað var myndefni frá slíkum veiðum. Þá var skipið skoðað hátt og lágt. Að lokinni heimsókninni til Síldarvinnslunnar hélt forsetinn og fylgdarlið hans til Mjóafjarðar.

Í brúnni á Beiti NK. Skipstjórarnir Tómas Kárason og Sturla Þórðarson ásamt forseta Íslands sem situr í skipstjórastólnum. Ljósm. Smári Geirsson