Hver syngjandi hópurinn á fætur öðrum hefur heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og eru krakkarnir klæddir hinum skrautlegustu búningum í tilefni öskudagsins. Kennarar Nesskóla hafa fylgt mörgum hópanna og virtust margir þeirra hafa æft söngvana samviskusamlega. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfisk og buff að gjöf enda vart annað viðeigandi en að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.

Það er hressandi og upplífgandi að fá heimsóknir sem þessar og starfsfólk skrifstofunnar naut þeirra til hins ítrasta. Síðar í dag munu krakkarnir fara á öskudagsball í íþróttahúsinu þar sem kötturinn verður sleginn úr tunnunni.

Á myndunum, sem Hákon Ernuson tók, má sjá káta krakka sem heimsóttu skrifstofurnar í dag.