Gullver NS að landa framan við frystihúsið á Seyðisfirði í gær.
Ljósm. Ómar Bogason

Landað var úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði í gær að lokinni stuttri veiðiferð. Aflinn var tæplega 70 tonn, mestmegnis þorskur og ýsa. Þórhalli Jónssyni skipstjóra er tíðrætt um veðrið þegar við hann er rætt. „Það var hvöss suðvestanátt í túrnum og slíkt veður er búið að standa lengi. Það er merkilegt hvað veðrið getur verið leiðinlegt úti á sjó eins og það er frábært hér í landi. Við hófum veiðar á Hvalbakshalli og Breiðdalsgrunni í drulluveðri og þar fékkst ágætur þorskur. Síðan færðum við okkur á Papagrunn og í Lónsbugtina en þar fengum við ýsu. Við gáfum okkur tíma til að leita að ufsa í túrnum en eins og oft áður var árangurinn afar lítill. Það voru fleiri skip í ufsaleit með sama árangri. Nú tekur við sjómannadagshelgi og síðan fer áhöfnin á Gullver á öryggisnámskeið á mánudaginn. Það er Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í öryggismálum, sem mun koma og fræða okkur meðal annars um Öldu öryggisstjórnunarkerfið og atviksskráningakerfið Atvik sjómenn. Að loknu námskeiðinu heldur Gullver á ný til veiða,“ segir Þórhallur.