SVNAðalsteinn Helgason hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. og í stað hans hefur Gunnþór Ingvason verið ráðinn framkvæmdastjóri. Jóhannes Pálsson hefur einnig verið ráðinn framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi ásamt því að hafa umsjón með markaðs, sölumálum og vinnslu.
Aðalsteinn hefur verið ráðinn til starfa hjá Katla Seafood sem nýlega hefur keypt erlenda starfsemi Sjólaskipa hf í Hafnarfirði. Aðalsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. í ársbyrjun 2006 “Þessi tími í Neskaupstað hefur verið mjög ánægjulegur. Fyrirtækið stendur vel, rekstur þess og fjárhagur er traustur. Ég vil sérstaklega þakka samstarfsfólki mínu hjá Síldarvinnslunni hf. og stjórn þess ánægjuleg samskipti.” segir Aðalsteinn Helgason.

Stjórn Síldarvinnslunnar hf. þakkar Aðalsteini vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Um leið býður stjórnin Gunnþór Ingvason og Jóhannes Pálsson velkomna til nýrra starfa hjá Síldarvinnslunni hf.

Jóhannes, sem er 48 ára er menntaður véla- og rekstrarverkfræðingur, var ráðinn til starfa hjá Síldarvinnslunni hf. 23. mars 2001 og tók þá við starfi framkvæmdastjóra landvinnslu. Árið 2006 tók hann einnig við starfi framkvæmdastjóra SR-Mjöls hf., sem er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. og sér um sölu á mjöli og lýsi.
Jóhannes var áður framkvæmdastjóri Hönnunar og ráðgjafar hf á Reyðarfirði.

Gunnþór, sem er 39 ára er menntaður iðnaðartæknifræðingur, var ráðinn til starfa hjá Síldarvinnslunni hf. í ársbyrjun árið 2003 við samruna Síldarvinnslunnar hf. og SR-Mjöls hf. 1. janúar 2003. Fyrst var hann ráðinn sem aðstoðarmaður forstjóra en tók við starfi útgerðarstjóra 15. apríl 2005. Gunnþór var áður starfsmaður SR-Mjöls hf og hafði þar yfirumsjón með hráefnisinnkaupum og stýringu á hráefni til verksmiðja félagsins.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. þriðjudaginn 5. júní 2007. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar hf. í síma 460 9010