Minningarreiturinn samkvæmt tillögu Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar

Í tilefni 60 ára afmælis Síldarvinnslunnar í Neskaupstað árið 2017 var ákveðið að láta gera minningarreit á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Reiturinn verður helgaður þeim sem látist hafa í störfum hjá fyrirtækinu. Á grunninum stendur gamall gufuketill og er gert ráð fyrir að hann verði hluti reitsins.

Efnt var til samkeppni um útfærslu á reitnum árið 2018 þar sem öllum gafst kostur á að setja fram hugmyndir um gerð hans. Þátttakendur í samkeppninni voru beðnir um að taka tillit til þess að reiturinn ætti að vera friðsæll og hlýlegur staður og þar ætti að vera aðstaða fyrir fólk til að setjast niður og njóta kyrrðar. Þá var gert ráð fyrir að komið yrði fyrir minningarskildi eða minningarskjöldum um þá sem látist hafa í starfi auk þess sem sögu fyrirtækisins yrði gerð stuttlega skil.

Alls bárust átta tillögur um gerð minningarreitsins og voru þær metnar af dómnefnd. Niðurstaðan varð sú að tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar bar sigur úr býtum en einnig hlaut hluti tillögu Ólafíu Zoëga verðlaun. Á grundvelli tillagnanna tveggja hefur Landmótun – landslagsarkitektar séð um hönnun á svæðinu sem minningarreiturinn verður gerður á.

Framkæmdir við gerð minningarreitsins eru hafnar. Ljósm. Smári Geirsson

Að undanförnu hafa framkvæmdir við gerð minningarreitsins verið undirbúnar og hefur Geir Sigurpáll Hlöðversson haft umsjón með undirbúningsvinnunni. Framkvæmdir við gerð reitsins hófust síðan nú eftir páskana og miðar þeim samkvæmt áætlun. Það er fyrirtækið Brúnsteinn undir stjórn Birgis Axelssonar sem annast verkið.

Stefnt er að því að öllum framkvæmdum við gerð reitsins ljúki í sumar.