Framkvæmdir hafnar við pökkunarmiðstöð. Ljósm. Smári Geirsson.Í gær hófust framkvæmdir við nýbyggingu sem Síldarvinnslan reisir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Byggingin sem um ræðir verður 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Nýja húsið mun þjóna hlutverki pökkunarmiðstöðvar fiskiðjuversins en þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Full ástæða er til að bæta pökkunaraðstöðuna miðað við núverandi afköst versins en eins er nýja húsið byggt með tilliti til afkastaaukningar sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Það er Haki ehf. sem annast jarðvegsframkvæmdir vegna byggingarinnar en unnið er að samningum við aðra verktaka. Ráðgert er að nýja húsið verði fullbyggt í lok júnímánaðar áður en makríl- og síldarvertíð hefst.