Blængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonBlængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonFrystitogarinn Blængur NK er nú í þurrdokk í Gdansk Póllandi þar sem unnið er að ýmsum framkvæmdum í skipinu. Skipið fór í dokkina fyrir einni og hálfri viku og síðan hefur verið unnið við að sandblása það og mála ásamt því sem íbúðir hafa verið rifnar en þær verða allar endurnýjaðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Karls Jóhanns Birgissonar, rekstrarstjóra útgerðarsviðs Síldarvinnslunnar, sem staddur er í Gdansk. „Við höfum verið óskaplega heppnir með veður þannig að vel hefur gengið að sandblása og mála skipið. Það er farið að vora hér í norðanverðu Póllandi. Blængur mun fara úr dokkinni í næstu viku og leggjast við bryggju og þar verður framkvæmdum um borð haldið áfram en áætlað er að verkið hér í Póllandi taki 12 vikur. Það hefur ekkert óvænt komið upp á og allt lítur vel út hvað varðar áframhald verksins hér ytra. Þegar öllum framkvæmdum lýkur hér í Póllandi verður síðan siglt til Akureyrar þar sem ný vinnslulína verður sett í skipið,“ sagði Karl Jóhann.
 
Aðspurður kvaðst Karl Jóhann koma heim um helgina en Freysteinn Bjarnason verður hins vegar fulltrúi Síldarvinnslunnar og eftirlitsmaður með framkvæmdunum við Blæng í Póllandi.