Framkvæmdir við stækkun Norðfjarðarhafnar ganga vel og virðast tímaáætlanir ætla að standast í öllum meginatriðum. Þessar framkvæmdir skipta Síldarvinnsluna miklu máli enda hafa stærstu skip átt mjög erfitt með að athafna sig í höfninni til þessa. Slík skip geta einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Umferð um höfnina er mikil og má nefna að á árinu 2012 voru skipakomurnar 519 og eru þá smærri bátar ekki taldir með. Þá hafa þrengsli í höfninni oft verið til óþæginda og ekki er óalgengt að skip þurfi að bíða úti á firði til að komast að.
Skrifað hefur verið undir þrjá verktakasamninga vegna núverandi framkvæmda við höfnina. Í maí var skrifað undir samning við Héraðsverk sem sér um jarðvinnuhlutann, þ. e. hafnargarða, grjótfláa, gerð nýrrar smábátahafnar o. fl. Framkvæmdir að hálfu Héraðsverks hafa gengið vel og er fyrsti áfangi verksins langt kominn en verklok eru áætluð í desember. Annar áfangi þess verks sem Héraðsverk sinnir verður síðan unninn á næsta ári og er helstu þáttur þess verkhluta færsla grjótgarðs. Gert er ráð fyrir að vinna við annan áfanga hefjist 15. apríl og ljúki 31. október 2014.
Í júlímánuði í sumar var skrifað undir samning við Björgun um dýpkun hafnarinnar og dælingu efnis undir nýja grjótgarðinn. Dælingin verður einnig unnin í áföngum og á dælingu innan hafnar að verða lokið um mánaðamótin janúar – febrúar 2014 og er sá hluti verksins á áætlun. Vinna við síðari hluta verksins hefst síðan á vormánuðum en þá verður gamli grjótgarðurinn fluttur utar. Verklok við dýpkunarframkvæmdir og dælingu á efni eru áætluð í júnímánuði 2014.
Þriðji verksamningurinn vegna hafnarframkvæmdanna var undirritaður hinn 14. nóvember sl. Var hann gerður við Hagtak og felur í sér lengingu stálþils togarabryggjunnar um 60 metra. Þeirri framkvæmd á að vera lokið um mánaðamótin apríl – maí 2014.
Gert er síðan ráð fyrir að gerð þekju við nýja stálþilið og uppsetning á svokallaðri tunnu við enda nýja grjótgarðsins komi til framkvæmda á árinu 2015 en þá verður einnig hafinn undirbúningur að umhverfisframkvæmdum við hafnarsvæðið.
Samhliða öllum þessum framkvæmdum verður unnið að úrbótum á löndunaraðstöðu fyrir smábáta í höfninni en verktaki við þá framkvæmd er Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður frá Dalvík. Gerð verður ný löndunarbryggja og er þegar búið að reka niður staura hennar og jarðvinna undir sjávarmáli langt komin. Verklok við nýju smábátabryggjuna eru áætluð 15. apríl á næsta ári.
Ljóst er að þessar framkvæmdir við Norðfjarðarhöfn munu gjörbreyta allri aðstöðu fyrir þau skip og báta sem þangað sækja. Höfnin verður rýmri og öruggari en áður og fyrir stærri skip verður breytingin einstaklega jákvæð. Ekkert fer á milli mála að umræddar framkvæmdir eru afar þarfar enda höfnin önnur af tveimur stærstu fiskihöfnum landsins og umsvifin í samræmi við það.