Frá vígslu minningareitsins 25. ágúst 2022. Ljósm. Smári Geirsson

Í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar árið 2017 var ákveðið að gera minningareit á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Reiturinn skyldi helgaður þeim sem látist hafa í störfum hjá fyrirtækinu.

Efnt var til samkeppni um útfærslu á reitnum árið 2018 og bárust átta tillögur um gerð hans. Tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar bar sigur úr býtum en einnig hlaut tillaga Ólafíu Zoёga verðlaun. Á grundvelli þessara tveggja tillagna sá Landmótun – landslagsarkitektar um hönnun á svæðinu sem minningareiturinn yrði gerður á.

Framkvæmdir við gerð reitsins hófust vorið 2022 og hafði Geir Sigurpáll Hlöðversson umsjón með þeim en það var fyrirtækið Brústeinn ehf undir stjórn Birgis Axelssonar sem annaðist þær að mestu. Vígsla reitsins fór síðan fram við hátíðlega athöfn þann 25. ágúst um sumarið þegar fyrri áfanga verksins var lokið. Þótti vel hafa tekist til við gerð reitsins en frá upphafi var ætlast til að hann yrði friðsæll og hlýlegur staður þar sem fólk gæti notið kyrrðar.

Smíði bryggjunnar neðan við grunn gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar er að ljúka. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson

Framkvæmdum við reitinn var hins vegar ekki lokið vegna þess að ráð var fyrir gert að frá reitnum og niður að sjó neðan við grunn gömlu verksmiðjunnar lægi göngustígur að lítilli bryggju þar sem fólk gæti notið þess að horfa yfir fjörðinn. Framkvæmdir við göngustíginn hófust í fyrra en nú er stefnt að því að ljúka þeim endanlega í sumar. Landið fyrir neðan grunninn hefur þegar verið mótað og lega göngustígsins ákveðin. Þá er smíði bryggjunnar að ljúka um þessar mundir. Brústeinn mun eftir sem áður annast frágang svæðisins. Kranar ehf sáu um að reka niður bryggjustaurana en Guðbjartur Hjálmarsson og hans menn sáu um bryggjusmíðina að öðru leyti. Þá mun Vélaverkstæðið G. Skúlason einnig koma að framkvæmdunum. Að sögn Geirs Sigurpáls Hlöðverssonar hefur verkið gengið vel til þessa.

Litla bryggjan sem nú hefur verið smíðuð er á svipuðum stað og gamla löndunarbryggja fiskimjölsverksmiðjunnar var á. Það eiga örugglega margir eftir að njóta þess að ganga niður á hana og njóta kyrrðar og fegurðar í stað þess skarkala og iðandi athafnalífs sem einkenndi staðinn á fyrri tíð.