Fremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári GeirssonFremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum
og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári Geirsson
Lokið er við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað og er húsið nú orðið til fyrirmyndar. Klæðningin er að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og er útlit skemmunnar sambærilegt við útlit hinnar svonefndu skreiðarskemmu sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Þessi tvö hús voru svo sannarlega farin að láta á sjá en nú eru þau til prýði. Það var Nestak hf. sem annaðist framkvæmdirnar við saltfiskskemmuna.
 
Saga saltfiskskemmunnar er merk en hún var reist sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á byggingunni árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Skemman hýsti saltfiskverkun til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997. Hin síðari ár hefur saltfiskskemman verið nýtt sem geymsluhúsnæði rétt eins og skreiðarskemman.