Capture

            Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2014 og 2015. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar teljast, auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá hf. og SVN-eignafélag ehf.

       Hér skal getið um nokkrar athyglisverðar niðurstöður samfélagssporsins:

 • Rekstrartekjur samstæðunnar námu 27 milljörðum króna árið 2015 og fjöldi ársverka var 334.

 • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2015 nam 10,5 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

 • Launagreiðslur námu 15% af verðmætasköpun ársins 2015.

 • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2015 var 12,3 milljónir króna.

 • Samfélagssporið nam 15,3 milljónum fyrir hvern starfsmann á árinu 2015.

 • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna á árinu 2014 og 872 milljónum á árinu 2015.

 • Veiðigjöld sem hlutfall af samfélagsspori námu tæplega 20% árið 2014 og 17% árið 2015.

 • Á árinu 2015 greiddi samstæðan 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

 • Alls greiddi samstæðan 94 milljónir króna í stimpilgjöld á árinu 2015, þar af voru greiddar 82 milljónir í stimpilgjöld vegna kaupa á uppsjávarskipinu Beiti NK.

 • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,1 milljarði árið 2015. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,7 milljörðum króna í formi skatta og gjalda á árunum 2014 og 2015. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.

  Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um samfélagssporið

16-06-22_Samfélagsspor_SVN_glærur.pdf