Það voru tímamót þegar Árdís Sigurðardóttir lét af störfum sem verkstjóri í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði eftir áratuga farsælt starf og í kjölfarið hefur verið ráðinn þangað framleiðslustjóri auk þess sem nýr verkstjóri hefur tekið til starfa. Framleiðslustjórinn er Róbert Ingi Tómasson sjávarútvegsfræðingur en nýi verkstjórinn er Lóa Margrét Pétursdóttir.
 
Tíðindamaður heimasíðunnar átti stutt spjall við þau Róbert og Lóu Margréti á dögunum, en bæði eru spennt fyrir þeim verkefnum sem nýju störfin fela í sér.
 
Róbert Ingi Tómasson. Ljósm. Ómar BogasonRóbert Ingi Tómasson.
Ljósm. Ómar Bogason
Róbert segist hafa komið til starfa á Seyðisfirði í byrjun maímánaðar og segir gaman að takast á við ný og framandi verkefni. „Ég er Akureyringur og var svolítið hræddur við að flytja í minna byggðarlag, en hér hefur allt gengið eins og best verður á kosið. Það hefur verið tekið afskaplega vel á móti mér og það er gaman að mæta í vinnuna hvern einasta dag. Konan mín, Arna Dögg Arnarsdóttir, er í námi og hún mun ekki koma til Seyðisfjarðar fyrr en í haust. Ég er reyndar líka í námi og stefni að því að ljúka mastersprófi í nýsköpun og viðskiptaþróun. Það er afskaplega mikilvægt fyrir mig að njóta leiðsagnar Árdísar Sigurðardóttur, fyrrverandi verkstjóra í frystihúsinu, en hún þekkir allar hliðar starfseminnar í smáatriðum. Hlutverk mitt í starfi er að hafa yfirumsjón með framleiðslustarfseminni og sinna öryggismálum og gæðamálum, en gæðamálin taka einmitt mikinn tíma um þessar mundir. Mín hægri hönd í starfinu er verkstjórinn, en Lóa Margrét Pétursdóttir hefur tekið við því starfi. Það er ekki hægt að hugsa sér betri hægri hönd því Lóa hefur mikla reynslu og gjörþekkir allar aðstæður. Mér fannst það einstakt tækifæri að eiga kost á því að sinna starfi hjá fyrirtæki eins og Síldarvinnslunni. Síldarvinnslan er traust og framsækið fyrirtæki og fyrir sjávarútvegsfræðing er það ómetanlegt að fá að taka þátt í störfum þess,“ segir Róbert Ingi.
 
Lóa Margrét Pétursdóttir. Ljósm. Ómar BogasonLóa Margrét Pétursdóttir.
Ljósm. Ómar Bogason
Lóa Margrét Pétursdóttir er fæddur og uppalinn Seyðfirðingur. Hún hefur starfað í frystihúsinu á Seyðisfirði í 30 ár og starfaði reyndar áður í 14 ár í frystihúsinu Norðursíld á Seyðisfirði. Lóa Margrét hefur því mikla reynslu og segir hún að það sé tilhlökkunarefni að takast á við verkstjórastarfið. „Það er veruleg ábyrgð sem felst í því að taka við verkstjórastarfi af Árdísi Sigurðardóttur, en við höfum unnið lengi saman og ég hef reyndar leyst hana af þegar á hefur þurft að halda. Ég ætti því að vita ágætlega um hvað verkstjórastarfið snýst og kvíði því ekki að takast á við það. Ég held að við Róbert framleiðslustjóri getum unnið vel saman þannig að framtíðin er bara björt. Vinnslan hjá okkur hefur gengið vel að undanförnu og við þurfum að tryggja að svo verði áfram,“ segir Lóa Margrét.