Fyrirtækið Creditinfo tilnefnir árlega framúrskarandi fyrirtæki í þremur stærðarflokkum. Með valinu er verið að veita viðurkenningu fyrir stöðugleika og ráðdeild í rekstri þar sem fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði í þrjú ár í röð. Samtals í öllum flokkum voru tilnefnd 462 fyrirtæki sem framúrskarandi en alls eru 33 þúsund fyrirtæki skráð á Íslandi. Fram kom í fréttatilkynningu frá Creditinfo að framúrskarandi fyrirtækjum hefði fjölgað í öllum landshlutum á milli ára og benti það til þess að rekstur þeirra færi batnandi.
Í flokki stórra fyrirtækja var Samherji í efsta sæti og Síldarvinnslan í öðru sæti en niðurstöður valsins voru kynntar í gær.