Rekstur Síldarvinnslunnar hf. á árinu 2012:
Hagnaður Síldarvinnslunnar 7 milljarðar króna

-Hagnaður Síldarvinnslunnar fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 9,6 milljarðar króna
-Hagnaður fyrir skatta 8,6 milljarðar króna
-Greiddur tekjuskattur og veiðileyfagjald ásamt öðrum opinberum gjöldum nema 3,1 milljarði króna
-Eiginfjárhlutfall er 59%
-Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
-Um frystigeymslur félagsins fóru 90 þúsund tonn af afurðum
-Framleiðsla landvinnslunnar nam 106 þúsund tonnum

 
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2012 voru alls 24 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 14,3 milljörðum króna. EBITDA var 9,6 milljarðar króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 260 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 8,6 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1680 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 7 milljarðar króna.

Skattar
Síldarvinnslan greiðir 3,1 milljarð til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu er 1600 milljónir króna en önnur opinber gjöld námu 650 milljónum. Veiðigjöld námu 850 milljónum á síðasta fisveiðiári.

Fjárfestingar
Fjárfestingar Síldarvinnslunnar hafa miðað að því að efla manneldisvinnslu félagsins og auka hagkvæmni og vinnslutækni í fiskimjölsverksmiðjunum.

Fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað var rafvædd að fullu og nýtir eingöngu innlenda umhverfisvæna raforku. Á árinu var Börkur NK 122 keyptur. Skipið er mjög vel búið til kælingar á afla og styður koma hans við manneldisvinnslu félagsins og stuðlar að aukinni verðmætasköpun úr uppsjávarheimildum. Í fiskiðjuverinu var bætt við afkastagetuna með uppsetningu á frystiskápum og stækkun á frystikerfi. Heildarfjárfestingar félagsins námu 3,1 milljarði króna. Á árinu 2012 var undirritaður samningur um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Berg-Hugin. Bergur-Huginn gerir út tvo 29 metra togara, Vestmannaey VE 444 og Bergey VE 544. Kaupsamningurinn tók gildi þann 22. apríl sl. með samþykki Samkeppniseftirlitsins. Félagið varð hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar frá 1. janúar 2013.

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2012 voru bókfærðar á 36,9 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 13,6 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 15,0 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 21,9 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 59%.

Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipanna var 7.570 tonn, aflaverðmæti 2.050 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa félagsins var 140 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.660 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var 6.680 milljónir króna og aflamagn 146.550 tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 235 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2012. Framleidd voru 45 þúsund tonn af mjöli og 18 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 63 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 12.500 milljónir króna.
Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 43.000 tonn, þar vega síldarafurðir mest, síðan makrílafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 8.100 milljónir króna.

Um frystigeymslurnar fóru 90 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla í landvinnslum félagsins nam 105.600 tonnum á árinu 2012 að verðmæti tæplega 21 milljarði króna.

Starfsmenn
Hjá Síldarvinnslunni starfa 230 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins voru 2.800 milljónir króna á árinu 2012 en af þeim greiða starfsmennirnir rúman milljarð í opinber gjöld.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 5. september. Í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins lagði stjórnin til að greiddur yrði 30% arður af hagnaði til hluthafa. Var það samþykkt.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. fimmtudaginn 5. september 2013.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.