Rekstur Síldarvinnslunnar hf. á árinu 2009:

Hagnaður fyrir skatta 21,7 milljónir dollara

SVNSíldarvinnslan skilar nú fyrsta uppgjöri sínu eftir að hafa tekið upp bandaríkjadollar (usd) sem uppgjörsmynt. Hagnaður fyrir skatta nam 21,7 milljón usd á árinu 2009. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, er 35,4 milljónir usd eða 39% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri nam 30,7 milljónum usd og handbært fé frá rekstri 34,9 milljónum usd.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2009 voru alls 90,3 milljónir usd og rekstrargjöld námu 54,9 milljónum usd. EBITDA var 35,4 milljónir usd. Fjármunatekjur voru 394 þúsund usd og fjármagnsgjöld 4,0 milljónir usd á árinu 2009. Gengistap var 3,1 milljónir usd. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 21,7 milljónum usd. Reiknaðir skattar námu 4,8 milljónum usd og var hagnaður ársins því 16,9 milljónir usd.
 
Samkeppnishæfari vinnsla
Þrátt fyrir aflabrest í loðnu, áframhaldandi samdrátt í kolmunnakvóta og bolfiskkvótum ásamt sýkingu í íslenska síldarstofninum skilaði fyrirtækið viðunandi rekstrarniðurstöðu á síðasta ári. Má aðallega þakka það auknum makrílafla og góðum afla í norsk-íslenskri síld. Unnin voru 40 þúsund tonn af hráefni í uppsjávarfrystingu félagsins á síðasta ári. Markaðir fyrir mjöl og lýsi voru sterkir á árinu. 
Þær fjárfestingar og hagræðingaraðgerðir sem átt hafa sér stað í uppsjávarvinnslu félagsins hafa skilað félaginu samkeppnishæfari vinnslu. Virðisaukinn sem uppsjávarfrystingin skilaði á síðasta ári er um 1,2 milljarður króna umfram það sem mjöl- og lýsisvinnsla hefði skilað. Þar af fóru 250 milljónir króna í launagreiðslur. Félagið er vel í stakk búið til að hámarka virði þess uppsjávarafla sem berst að landi út frá markaðsaðstæðum hverju sinni.


Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2009 voru bókfærðar á 202,6 milljónir usd. Veltufjármunir voru bókfærðir á 62,6. milljónir usd og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 131,3 milljónum usd. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 71,3 milljónir usd. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 35% og veltufjárhlutfallið var 2,7.

Horfur
Markaðsverð á mjöli og lýsi er hagstætt um þessar mundir og eru vísbendingar um að mjölverð muni styrkjast frekar þegar líður á árið. Góðar horfur eru með markaði fyrir frystar afurðir fyrirtækisins. Vel gekk með vinnslu á nýlokinni loðnuvertíð þrátt fyrir að kvótinn væri lítill. Gott útlit er með loðnukvóta fyrir vertíðina 2011 en áframhaldandi samdráttur er í kolmunnanum.
Lítilsháttar niðurskurður er í norsk-íslensku síldinni, hún hefur verið að skila sér betur inn í íslenska lögsögu og í lengri tíma en áður. Miklar vonir eru bundnar við makrílveiðar og -vinnslu. Þar er mesta óvissan hvernig staðið verður að skipulagi veiðanna. Það er með öllu óásættanlegt að ekki sé komin niðurstaða í það mál nú, einungis tveimur mánuðum áður en vertíðin hefst. Mikil óvissa ríkir um íslensku síldina sökum sýkingar í stofninum. Þá kemur niðurskurður í bolfiski illa við rekstur bolfiskskipa félagsins. 
Umræðan og átökin um fiskveiðistjórnunarkerfið eru orðin óþolandi. Hagsmunaaðilar og stjórnvöld eiga að setjast niður og koma umræðu um sjávarútvegsmál í vitrænan farveg. Sú umræða sem átt hefur sér stað er búin að valda öllum sem í greininni starfa nægum skaða. Þar á að meta styrkleika og veikleika kerfisins – byggja á styrkleikunum og lagfæra veikleikana.

Starfsmenn
Síldarvinnslan hóf heilsu- og öryggisátak um síðustu áramót. Markmiðið er að koma upp öryggisstjórnunarkerfum á öllum starfstöðvum félagsins. Við ætlum okkur að útrýma vinnuslysum og bæta allt vinnuumhverfi okkar og byggir þessi vinna á virkri þátttöku allra starfsmanna.
Við höfum gert samkomulag við Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað um framkvæmd heilsufarsskoðana á öllum okkar starfsmönnum. Starfsfólk okkar mun fá ráðgjöf frá starfsmönnum heilbrigðisstofnunarinnar auk þess sem eftirfylgni og meðferð á veikindum verður markvissari en áður. Með þessu samkomulagi viljum við stuðla að bættri heilsu og vellíðan starfsfólks.
Ákveðið hefur verið að greiða fastráðnu landvinnslufólki launabónus sem kemur til greiðslu í maí. Um er að ræða þriðju launauppbót til starfsmanna félagsins á síðustu 12 mánuðum.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn þriðjudaginn 30. mars. Stjórn Síldarvinnslunnar hf. lagði til að greiddur yrði arður til hluthafa að upphæð 5.600.000 USD fyrir árið 2009 miðað við kaupgengi Seðlabanka Íslands á aðalfundardegi. Greiðsla arðsins fer fram 9. apríl 2010.

 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. þriðjudaginn 30. mars 2010.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.