Rekstur Síldarvinnslunnar hf. á árinu 2007:

Hagnaður fyrir skatta 2.507 milljónir króna

Síldarvinnslan hf. var rekin með 2. 507 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á árinu 2007. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, er 2.738 milljónir króna eða 27% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri nam 1.915 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 2.246 milljónum króna. 


Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2007 voru alls 9.069 milljónir króna og kostnaðarverð sölu nam 7.150 milljónum króna. Vergur hagnaður var því 1.919 milljónir króna. Fjármunatekjur voru 395 milljónir króna og fjármagnsgjöld voru jákvæð um 295 milljónum króna  á árinu 2007. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 2.507 milljónum króna. Reiknaðir skattar námu 398 milljónum króna og var hagnaður ársins  2.108 milljónir króna.
 Árið 2007 var félaginu hagstætt.  Afurðaverð á mjöli og lýsi var hátt í upphafi árs, en mjölverð lækkaði þegar leið á árið.  Olíuverð var hátt á árinu.  Markaðir fyrir frystar afurðir voru sterkir.  Fyrirtækið sameinaðist Súlunni ehf. og Garðar Guðmundssyni ehf.  Unnið var að hagræðingu á skipakosti félagsins og voru tvö skip seld, Beitir NK og Birtingur NK.  Haldið var áfram að hagræða í fiskimjölsverksmiðjunum.  Tæp 50 þúsund tonn af hráefni voru unnin til manneldis á síðasta ári sem er mesta magn sem farið hefur í gegnum frystihús félagsins á einu ári.      

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2007 voru bókfærðar á 19.660 milljónir króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 7.512 milljónir króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 13.285 milljónum króna. Nettó skuldir voru því 5.773 milljónir króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 6.375 milljónir króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 32%, lausafjárhlutfall 1,3 og veltufjárhlutfallið var 1,47 í árslok. 

Horfur
Heimsmarkaðsverð á lýsi er hagstætt um þessar mundir og vísbendingar um að mjölverð muni styrkjast aftur þegar líður á árið. Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað sem er fyritækinu hagstætt þar sem tekjur þess eru í erlendri mynt.   Loðnukvóti í ár var minni en væntingar stóðu til, mikil óvissa ríkti allt til loka vertíðar sem gerði allt skipulag erfitt.  Fyrirtækið telur brýnt að auka rannsóknir á loðnustofninum.   Í því skyni hefur verið fjárfest í búnaði fyrir skip félagsins sem nýst getur til rannsókna á honum. Ekki verður við það búið lengur að rannsóknir á loðnustofninum séu háðar útgerð tveggja skipa og sífelldar deilur standa um stýringu þeirra.  Fyrirtækið telur brýnt að útgerðin og Hafrannsóknarstofnunin sameinist um gagnaöflun sem nýst geti við mat á stofninum.   Samdráttur í loðnuveiðum undanfarin ár hefur komið harkalega niður á fiskimjölsverksmiðjum félagsins.  Kolmunnakvótinn minnkaði töluvert á milli ára, en gott útlit er með veiði úr norsk íslenska og íslenska síldarstofninum.  Niðurskurður á þorskstofninum kemur illa við rekstur bolfiskskipa félagsins.  Olíuverð hefur hækkað áfram á árinu og er orðið óbærilega hátt fyrir útgerðina.   

Sjá Lykiltölur 2007 (excel)

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. föstudaginn 28.mars 2008.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 8964760.