DSC04352

 Freysteinn Bjarnason framan við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Freysteinn Bjarnason og fjölskylda hans fluttist frá Akureyri austur til Neskaupstaðar hinn 10. júlí árið 1986. Hinn 15. júlí hóf Freysteinn síðan störf sem verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar þar. Í upphafi réð Freysteinn sig til starfa í þrjú ár en árin fyrir austan urðu þrjátíu. Nú hefur Freysteinn kvatt Síldarvinnsluna og í tilefni af því ákvað heimasíðan að ræða við hann. Viðtalið var tekið 15. júlí sl. en þá voru liðin þrjátíu ár upp á dag síðan Freysteinn hóf störf hjá fyrirtækinu. Hér skal Freysteini gefið orðið:

Óvænt atvinnutilboð

                Ég var búinn að starfa hjá Útgerðarfélagi Akureyringa í fjölda ára. Hafði verið vélstjóri á togurum fyrirtækisins og í átta ár hafði ég starfað við viðhaldsverkefni í landi. Að því kom að ég vildi breyta til og sótti um starf hjá fóðurverksmiðjunni Laxá. Finnbogi Jónsson var iðnráðgjafi Eyjafjarðar á þessum tíma og hann hafði samband við mig og sagðist geta boðið mér meira spennandi starf; það reyndist vera starf verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en Finnbogi sagði mér að hann hefði ráðið sig sem framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og væri á austurleið.

                Eftir mikla umhugsun og umræður innan fjölskyldunnar var ákveðið að ég réði mig til þriggja ára í verksmiðjustjórastarfið. Ég þekkti Neskaupstað frá því að ég var á síld fyrir austan en fjölskyldan hafði  haft lítil kynni af staðnum. Undirbúningur fyrir starfið hófst strax; ég heimsótti allar fiskimjölsverksmiðjur á Norðurlandi, allt austur til Raufarhafnar, og ég varð mér úti um lesefni sem gæti gagnast. Tímanum sem fór í þetta var vel varið og ég stóð fyrir vikið betur að vígi þegar ég hóf störfin fyrir austan.

Verksmiðjustjóri í níu ár

                Þegar ég hóf störf í verksmiðjunni  var byrjað á stóru verkefni sem fól í sér endurbætur á henni. Verksmiðjan þurfti mikilla umbóta við enda hafði hún að miklu leyti verið byggð með þeim búnaði sem tilheyrt hafði eldri verksmiðju sem eyðilagðist í snjóflóðunum hörmulegu árið 1974. Umbæturnar héldu síðan áfram nánast allan þann tíma sem ég var verksmiðjustjóri og hvert framfaraskrefið af öðru var stigið. Undir lok míns starfstíma var hafinn lokaáfanginn sem var að skipta út þurrkurum. Síðan hefur verksmiðjan verið þróuð áfram og er í dag stærsta fiskimjölsverksmiðja landsins.

Capture

Myndin er tekin 4. júlí 1996 þegar mikilvægum áfanga við endurbætur á fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað var lokið. Talið frá vinstri: Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri, Freysteinn Bjarnason útgerðarstjóri og Jón Már Jónsson verksmiðjustjóri.

                Þegar ég kom austur má segja að Síldarvinnslan hafi tæknilega séð verið gjaldþrota fyrirtæki. Á fyrstu árum mínum í verksmiðjunni varð ég svo sannarlega var við veika stöðu fyrirtækisins. Ég man að þegar ég var að byrja reyndi ég til dæmis að semja um afslætti á vörum og varahlutum sem þurfti að kaupa til verksmiðjunnar. Þá fékk ég venjulega að heyra að afsláttur kæmi ekki til greina og spurning væri hvort viðskipti við fyrirtækið ættu að eiga sér stað. En það var fyrir einstakan dugnað manna eins og Finnboga sem tókst að snúa þessu við. Fyrirtækið var eflt stig af stigi og afkoma þess fór sífellt batnandi.

                Á þessum tíma var sjávarútvegurinn í hinum mestu kröggum og mörg fyrirtæki áttu við svipaða erfiðleika að stríða og Síldarvinnslan. Í umræðu nútímans gleymist það gjarnan að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur ekki alltaf verið dans á rósum.

Útgerðarstjóri í áratug

                Í árslok 1995 var Jóhann K. Sigurðsson að láta af störfum útgerðarstjóra hjá Síldarvinnslunni fyrir aldurs sakir og mér bauðst að taka við starfi hans. Ég þáði starfið með þökkum. Þrátt fyrir að ég kynni vel við mig í verksmiðjustjórastarfinu fannst mér ég þarna kominn á minn heimavöll enda tengdur sjómennsku frá blautu barnsbeini.

Kafli 41 01

Útgerðarstjóraskipti 1. desember 1995. Freysteinn Bjarnason tekur við af Jóhanni K. Sigurðssyni sem verið hafði útgerðarstjóri frá því að Síldarvinnslan hóf útgerð. Ljósm: Elma Guðmundsdóttir

                Þegar ég tók við starfi útgerðarstjóra var margt breytt hjá Síldarvinnslunni; fyrirtækið var komið á markað, fjárhagurinn farinn að styrkjast og það var orðið mögulegt að hefja viðamiklar endurbætur á skipastólnum. Börkur var endurbyggður nánast frá grunni og frystitogarinn Barði (áður Snæfugl) var keyptur. Ég fann mig afar vel í þessu starfi og almennt má segja að útgerðin hafi gengið vel og áfallalaust  

Framkvæmdastjóri Sún og stjórnarmaður í Síldarvinnslunni

                Árið 2005 lét Kristinn V. Jóhannsson af starfi framkvæmdastjóra Samvinnufélags útgerðarmanna (Sún) og var mér boðið að taka við því starfi. Ég þurfti að hugsa mig alllengi um því ég átti verulega erfitt með að slíta Síldarvinnslustrenginn. Mér fannst að vísu kominn tími til að hægja á og gegna rólegra starfi en áður og ég hélt að starfið hjá Sún fæli það í sér, sem reyndist síðan mesti misskilningur. En það sem skipti sköpum og leiddi til þess að ég sagði á endanum óhikað já við Sún var að starfið fól í sér stjórnarsetu í Síldarvinnslunni enda Sún stærsti heimahluthafinn í fyrirtækinu.

                Enginn efast um hvað stofnun Sún var mikilvæg árið 1932 og síðar var félagið stærsti atvinnurekandinn í Neskaupstað ásamt því að eiga meirihluta í Síldarvinnslunni þegar það fyrirtæki var stofnað. Hin síðari ár hefur norðfirskt samfélag heldur betur notið Sún þar sem félagið lætur mikinn hluta þess arðs sem fæst af eignarhlutnum í Síldarvinnslunni renna til samfélagsverkefna innan fjallahringsins. Það er svo sannarlega gefandi að starfa fyrir félag eins og Sún og ég naut þess til hins ítrasta en af því starfi lét ég seint á síðasta ári.

Kafli 49 05

Framkvæmdastjóri og stjórn Síldarvinnslunnar vorið 2007. Talið frá vinstri: Aðalsteinn Helgason framkvæmdastjóri, Ingi Jóhann Guðmundsson, Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Freysteinn Bjarnason. Ljósm: Jóhannes Pálsson

                Þau tíu ár sem ég hef setið í stjórn Síldarvinnslunnar hafa í reynd verið stórkostleg upplifun. Að fá að taka þátt í ótrúlegri uppbyggingu fyrirtækisins og sjá það verða eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa verið hreinustu forréttindi. Ég vil meina að það hafi verið gæfa Síldarvinnslunnar að góðir menn komu að fyrirtækinu þegar það fór á markað á sínum tíma og í því sambandi ber helst að nefna þá Samherjamenn. Þorsteinn Már Baldvinsson og félagar hans hafa svo sannarlega staðið sig hvað varðar uppbyggingu Síldarvinnslunnar. Þekking og útsjónarsemi Samherjamanna er alveg einstök og hvað eftir annað hafa verið teknar réttar ákvarðanir á réttum tíma.

                Ég hvarf úr stjórn Síldarvinnslunnar á aðalfundi sem haldinn var í júní síðastliðnum en þar með er ekki öll sagan sögð. Ég var fengin til að hafa umsjón með framkvæmdum við frystitogarann Blæng úti í Póllandi í sumar og þar steig ég síðustu Síldarvinnsluskrefin. Ég var afar glaður og þakklátur að fá að sinna þessu lokaverkefni fyrir fyrirtækið.

Þakklæti og söknuður

                Um þessar mundir eru ég og konan mín að pakka niður og flytja á okkar gömlu slóðir á Akureyri. Árin þrjú sem við ætluðum að eiga hér fyrir austan eru orðin þrjátíu. Í stað okkar tveggja flytur sex manna fjölskylda frá Akureyri í húsið sem við höfum átt heima í alla okkar tíð hér eystra og það verða að teljast góð skipti fyrir sveitarfélagið.

                Á þessum þrjátíu árum hefur fyrirtækið verið undir stjórn fjögurra framkvæmdastjóra sem hafa reynst hver öðrum öflugri. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með þessum mönnum. Þetta eru Finnbogi Jónsson, Björgólfur Jóhannsson, Aðalsteinn Helgason og Gunnþór Ingvason. Auðvitað hafa þessir menn lagt grunninn að því fyrirtæki sem Síldarvinnslan er í dag. Ég er líka afar þakklátur eiginkonu minni, Ingibjörgu Árnadóttur, en hún átti í upphafi erfitt með að sætta sig við flutninginn austur. Hún var heima með ungan son okkar fyrstu árin en eftir að hún fór út á vinnumarkaðinn breyttist allt og hún tók samfélagið fullkomlega í sátt.

                Mér hefur líkað vel í Neskaupstað frá fyrsta degi og nú þegar við kveðjum er efst í huga þakklæti og söknuður. Þrjátíu ár eru drjúgur hluti starfsævinnar og þessi þrjátíu ár í Neskaupstað verða mér algerlega ógleymanleg.