Myndin af frú Vígdísi Finnbogadóttur sem prýðir borðsal Gullvers NS. Ljósm. Rúnar L. GunnarssonMyndin af frú Vígdísi Finnbogadóttur sem prýðir borðsal Gullvers NS. Ljósm. Rúnar L. GunnarssonFyrr í þessum mánuði fagnaði frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins, níræðisafmæli sínu. Margir samfögnuðu henni innilega og þar á meðal áhöfnin á ísfisktogaranum Gullver NS frá Seyðisfirði. Áhöfnin á Gullver hefur ávallt tengst frú Vigdísi með sérstökum hætti og í borðsal skipsins hangir á vegg mynd af henni og í einu horni myndarinnar stendur eftirfarandi: Með kveðjum og þakklæti til Jóns Pálssonar skipstjóra og áhafnar á b/v Gullbergi. Undir þennan texta ritaði frú Vigdís nafn sitt með eigin hendi en því miður hefur blekið máðst og er undirskriftin því vart greinanleg.
 
Upphaflega prýddi myndin vegg í borðsal Gullbergs NS en þegar Gullver leysti Gullberg af hólmi árið 1983 fékk myndin sinn heiðurssess í borðsal nýja skipsins þar sem hún hefur síðan verið.
 
Sagan á bak við myndina er sú að Jón Pálsson, skipstjóri á Gullbergi og síðar Gullver og jafnframt annar útgerðarmaður skipanna, var eindreginn stuðningsmaður Vigdísar í forsetakosningunum 1980. Þegar Vigdís heimsótti Austurland í kosningabaráttunni sótti Jón frambjóðandann upp á Hérað á rauða Bensinum sínum og studdi við bakið á henni með ráðum og dáð.
 
Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍ viðtali sem tekið var við frú Vigdísi á dögunum í tilefni níræðisafmælisins lagði hún áherslu á að hún elskaði sjómenn, enda studdu sjómenn hana dyggilega til embættis á sínum tíma. Þegar einhverjir lýstu efasemdum um að skynsamlegt væri að kjósa konu sem forseta mun Jón Pálsson hafa sagt að full ástæða væri til að treysta konu fyrir embættinu enda hefðu sjómenn löngum þurft að treysta konum sínum fyrir börnum og búi á meðan þeir sæktu gull í greipar Ægis og það hefði svo sannarlega reynst vel.
 
Myndin í borðsalnum á Gullver hefur nú fylgt áhöfn skipsins í hartnær fjörutíu ár og er álitin happagripur, enda hefur þetta 37 ára gamla skip ávallt reynst happafleyta.