Myndin af frú Vígdísi Finnbogadóttur sem prýðir borðsal Gullvers NS. Ljósm. Rúnar L. GunnarssonFyrr í þessum mánuði fagnaði frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins, níræðisafmæli sínu. Margir samfögnuðu henni innilega og þar á meðal áhöfnin á ísfisktogaranum Gullver NS frá Seyðisfirði. Áhöfnin á Gullver hefur ávallt tengst frú Vigdísi með sérstökum hætti og í borðsal skipsins hangir á vegg mynd af henni og í einu horni myndarinnar stendur eftirfarandi: Með kveðjum og þakklæti til Jóns Pálssonar skipstjóra og áhafnar á b/v Gullbergi. Undir þennan texta ritaði frú Vigdís nafn sitt með eigin hendi en því miður hefur blekið máðst og er undirskriftin því vart greinanleg.Upphaflega prýddi myndin vegg í borðsal Gullbergs NS en þegar Gullver leysti Gullberg af hólmi árið 1983 fékk myndin sinn heiðurssess í borðsal nýja skipsins þar sem hún hefur síðan verið.
Sagan á bak við myndina er sú að Jón Pálsson, skipstjóri á Gullbergi og síðar Gullver og jafnframt annar útgerðarmaður skipanna, var eindreginn stuðningsmaður Vigdísar í forsetakosningunum 1980. Þegar Vigdís heimsótti Austurland í kosningabaráttunni sótti Jón frambjóðandann upp á Hérað á rauða Bensinum sínum og studdi við bakið á henni með ráðum og dáð.
Myndin í borðsalnum á Gullver hefur nú fylgt áhöfn skipsins í hartnær fjörutíu ár og er álitin happagripur, enda hefur þetta 37 ára gamla skip ávallt reynst happafleyta.