Björgólfur JóhannssonFyrir Alþingi liggur nú frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, en markmið breytinganna var að ná fram sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ekki skyldi fórnað markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar eða raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni. Nefndinni bar í vinnu sinni að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu.


Ljóst er að verði frumvarp sjávarútvegsráðherra að lögum hefur það í för með sér verulega auknar álögur á sjávarútveginn. Ef marka má þau viðbrögð sem frumvarpið hefur hlotið þá er ljóst að það markmið, að ná fram sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, hefur ekki náðst. Frumvarpið hefur hlotið mikla gagnrýni og má þar einu gilda hvort um er að ræða samtök sjómanna eða útvegsmanna.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ sagði t.d., í samtali við Morgunblaðið, að frumvarpið væri allt slæmt. Auðlindagjaldið væri allt of hátt, ekkert tillit væri tekið til nauðsynjar þess að takmarka framsal aflamarks sbr. sameiginlegar tillögur útvegsmanna og sjómanna, byggðakvóti væri aukinn og áfram væri dekrað við smábáta. Hann segir útvegsmenn tilbúna til að greiða hóflegt gjald enda verði það til að ná víðtækri sátt, varanleika og stöðugleika í greininni og jafnræðis verði gætt við aðrar atvinnugreinar. Þetta vanti allt saman í frumvarpið. Þarna sé verið að leggja gríðarlega hátt gjald á útvegsmenn í öllu tilliti og að auki leggist þetta fyrst og fremst á fyrirtæki á landsbyggðinni. Friðrik segist ekki geta verið annað en mjög ósáttur við frumvarpið.

Elfar Aðalsteinsson, forstjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar, ræddi frumvarp sjávarútvegsráðherra í ræðu sinni á aðalfundi félagsins. Hann lýsti þar vonbrigðum sínum með þá eftirgjöf sem fælist í frumvarpinu. Auðlindagjald væri réttnefndur landsbyggðarskattur sem koma ætti aftur í gegnum styrkjakerfið. Taldi hann fyrirkomulagið afturför sem myndi leiða til þjóðhagslegs óhagræðis til lengri tíma litið. Elfar lagði um leið áherslu á að vinnufriður yrði að komast á, en sáttin virtist sér dýru verið keypt.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa, sagði í Svæðisútvarpinu á Akureyri að sé litist ekki á þá gjaldtöku sem fælist í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Útvegsmenn hafi lýst sig tilbúna til að greiða hófleg gjöld og nauðsynlegt sé að ná einhverri lendingu hvað þetta varðar. Frumvarp ráðherra feli hinsvegar ekki í sér hóflega gjaldtöku. Guðbrandur segir að nái frumvarpið fram að ganga, muni útgjöld Útgerðarfélags Akureyringa aukast um 100 milljónir króna á ári og það muni um minna.

Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar hf. taka undir gagnrýni á þetta frumvarp sjávarútvegsráðherra. Tillögur í frumvarpinu gera ráð fyrir allt of háu gjaldi, auk þess sem það getur ekki talist eðlilegt að skattleggja eina atvinnugrein sérstaklega. Það verður að ríkja jafnræði í gjaldtöku en líklegt er að auðlindagjald komi verst niður á smærri aðilum. Það er undarlegt að í frumvarpinu skuli ekki finnast ákvæði um meiri rýmkun á kvótaþaki, sem væri spor í rétta átt og myndi styrkja stöðu sjávarútvegsins. Stærri hluti kvóta landsmanna er vistaður á landsbyggðinni og þar af leiðandi má líta á þessar tillögur sem landsbyggðarskatt. Mjög mikilvægt er að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið og leiðir að því marki, en það er hinsvegar alltaf spurning hvað slík sátt má kosta.