Mikil úrkoma hefur verið á Seyðisfirði og hafa bæði frystihús og fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar verið rýmd ásamt fleiri húsum. Spáð er áframhaldandi mikilli úrkomu á Austfjörðum í dag. Ljósm. Ómar Bogason

Síðdegis í gær voru hús við Strandarveg og Hafnargötu á Seyðisfirði rýmd í öryggisskyni vegna mikillar úrkomu og hættu á aurflóðum. Bæði frystihús og fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar eru á rýmingarsvæðinu. Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins, segir að lokið hafi verið við að vinna allan fisk í frystihúsinu eftir hádegið í gær og hafi starfsfólk þá þegar verið sent heim. Sagði Ómar að fiskur yrði ekki tekinn til vinnslu fyrr en veðrið gengi niður. Engin vinnsla var í fiskimjölsverksmiðjunni en hins vegar var unnið þar við tankasmíði. Hlé var gert á þeim framkvæmdum í gær.

Í morgun höfðu engar skriður fallið á Seyðisfirði en farið verður að öllu með gát vegna spár um áframhaldandi mikla úrkomu.