Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Hinn 5. júlí næstkomandi mun sumarlokun hefjast í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og mun vinnsla hefjast á ný hinn 14. ágúst. Að sögn Róberts Inga Tómassonar framleiðslustjóra hefur vinnsla í húsinu gengið vel að undanförnu en áhersla hefur verið lögð á framleiðslu á ferskum hnökkum. Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins, segir að sumarlokunin verði notuð til að dytta að ýmsu í húsinu.

Nú er verið að vinna afla úr Gullver NS en hann kom til löndunar á mánudaginn. Afli skipsins var 88 tonn, mest ýsa, þorskur og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í Hvalbakshalli og í Berufjarðarálnum og veiðin hafi gengið þokkalega. „Þetta mjatlaðist bara ágætlega,“ segir Steinþór.

Gullver hélt á ný til veiða í gær.