Um þessar mundir er unnið að því að endurnýja klæðningu og þakplötur á frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en húsið var verulega farið að láta á sjá. Lokið er við að rífa gömlu klæðninguna af að mestu og nú er verið að setja upp leiðarakerfi fyrir nýja klæðningu sem verður í Síldarvinnslulitunum. Það er fyrirtækið Og synir-ofurtólið ehf. sem sinnir verkinu undir stjórn Þorsteins Erlingssonar framkvæmdastjóra og húsasmíðameistara. Þessa dagana starfa sex menn við framkvæmdirnar en það er Mannvit hf. sem sér um hönnun og eftirlit.
Hafist var handa við verkið um miðjan júnímánuð og gert er ráð fyrir að því ljúki í september. Það er ljóst að húsið verður glæsilegt að verki loknu, öllum til sóma og sannkölluð bæjarprýði.