Frystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum þriggja vikna túr. Heildarafli í túrnum var um 560 tonn upp úr sjó en um 220 tonnum var millilandað í Hafnarfirði 28. febrúar. Uppistaða aflans var gullkarfi en nokkur hluti hans var djúpkarfi, þorskur og gulllax. Helst var veitt á Melsekk sem er suðvestur af Reykjaneshrygg og síðan einnig á Eldeyjarbanka. Undir lok veiðiferðarinnar var gullax veiddur í Grindavíkurdýpi og á Kötluhrygg. Aflaverðmæti í túrnum nemur um 123 milljónum króna. Að sögn Theodórs Haraldssonar skipstjóra var hundleiðinlegt veður nánast allan túrinn en undir lok hans komu þó tveir góðir dagar.
Gert er ráð fyrir að Barði haldi aftur til veiða klukkan eitt eftir hádegi á sunnudag.