Frystitogarinn Barði NK er að landa um 210 tonnum í Hafnarfirði í dag og er gullkarfi uppistaða aflans. Um millilöndun er að ræða en veiðar í túrnum hófust 19. febrúar og hafa þær farið fram á svonefndum Melsekk. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að að veiðin hafi verið ágæt allan túrinn eða frá 3 og upp í 30 tonn í holi. Að vísu hafi veðrið ekki verið til að hrópa húrra fyrir: „Það hefur verið kaldaskítur allan túrinn en nú er hann að spá eitthvað betra veðri á þessum slóðum“, sagði Theodór.
Barði mun halda aftur til veiða frá Hafnarfirði klukkan fimm í dag og gert er ráð fyrir að leggja áfram áherslu á karfaveiðar. Gert er ráð fyrir að veiðiferðinni muni ljúka um 12. mars og þá verði landað í heimahöfn.