Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson. Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson.Um þessar mundir koma vinnsluskip nánast daglega til Neskaupstaðar og landa frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Sl. miðvikudag var lokið við að landa 645 tonnum af síldarflökum úr grænlenska skipinu Polar Amaroq en aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni  beint norður af landinu. Halldór Jónasson skipstjóri segir að á þessum slóðum séu litlar síldarlóðningar en þrátt fyrir það kroppi menn þokkalega í partroll. Polar Amaroq er á partrollsveiðum með Polar Princess, sem landaði 900 tonnum í Hafnarfirði á sama tíma og Polar Amaroq landaði í Neskaupstað, en þetta er önnur veiðiferð skipanna á síldveiðum. „Það gefur miklu betri árangur við þær aðstæður sem þarna ríkja að nota partrollið og síldin sem við fáum er stór og falleg. Þetta er 410 gramma síld,“ sagði Halldór.
 
Í kjölfar Polar Amaroq lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA í frystigeymslurnar í gær og var uppistaða aflans makríll. Hákon landaði 635 tonnum og Vilhelm um 500. Síðan er von á Kristinu EA í fyrramálið og mun hún landa rúmlega 2000 tonnum af frystum makríl.
 
Þegar heimasíðan hafði samband við Heimi Ásgeirsson yfirverkstjóra í frystigeymslunum sagðist hann varla geta gefið sér tíma til að ræða þessi mál. „Hér eru miklar annir. Fyrir utan landanir fara reglulega frá okkur gámar með frystum afurðum og síðan koma skip sem lesta hér í höfninni. Við erum búnir að skipa út á þriðja þúsund tonnum í þessari viku og í morgun kom skip sem mun taka á fjórða þúsund tonn. Gámunum er skipað út á Reyðarfirði þannig að þetta þýðir mikla flutninga yfir Oddsskarð. Við eigum síðan von á öðru skipi á sunnudag og því þriðja á mánudag. Svona gengur þetta fyrir sig á vertíðinni, það er ekki hægt að kvarta undan verkefnaskorti,“ sagði Heimir.