Afli Bergs VE og Vestmannaeyjar VE var að mestu ýsa og þorskur.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Bæði skip höfðu verið tvo sólarhringa að veiðum þannig að vel aflaðist. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðin hafi verið fín. „Við vorum á réttu róli, fyrstir eftir brælu og þetta gekk nánast eins og í sögu. Við byrjuðum á Víkinni, héldum síðan í Meðallandsbugtina og kláruðum á Ingólfshöfða. Aflinn var mest þorskur og ýsa,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, tekur undir með Birgi Þór og segir að veiðin hafi verið glimrandi og veður gott. „Við byrjuðum í þorski á Víkinni, síðan var veidd ýsa á Ingólfshöfða og þá haldið á ný á Víkina og þar tekinn þorskur, ýsa og dálítill ufsi. Þarna er nóg af fiski þó ufsann vanti sárlega. Fiskurinn er þarna í loðnunni og hefur nóg að éta,“ segir Jón.

Vestmannaey og Bergur munu halda til veiða á ný um miðjan dag á morgun.