Ísfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja aðfaranótt sunnudags að lokinni 30 tíma veiðiferð. Aflinn var að mestu þorskur en einnig dálítið af ýsu. Aflanum var landað í gær og héldu togararnir báðir til veiða strax að löndun lokinni. Skipin fengu aflann á Péturseyjarbleyðunni og voru að veiðum í leiðindaveðri allan tímann. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að vertíðin sé varla hafin. „Fiskurinn er farinn að sýna sig en þetta er þó mun minna en undanfarin ár. Líklega er hann bara seint á ferðinni. Það er góð og þokkaleg veiði víða og fiskurinn á Péturseynni var sneisafullur af loðnu. Núna erum við á Tánni, suður af Grindavík, að eltast við ufsa. Það hefur verið ufsaveiði hérna síðustu sólarhringa en hún er farin að gefa mikið eftir,“ segir Jón.
Egill Guðni Guðnason, stýrimaður á Vestmannaey tekur undir með Jóni og segir að fiskurinn sé seinna á ferðinni en undanfarin ár. „Hann kemur til dæmis býsna seint á Selvogsbankann. Skilyrðin í hafinu eru líklega breytt og svo hefur verið vitlaust veður að undanförnu. Síðasti túr var góður þrátt fyrir veðrið en nú erum við austarlega á Víkinni og við sjáum til hvernig þetta verður hérna. Veðurspáin núna er bara góð og það er skemmtileg tilbreyting. Annars erum við á Vestmannaey hressir með að vera komnir af stað á ný eftir langt stopp vegna viðgerðar á vél. Hér um borð er allt í himnalagi,“ segir Egill Guðni.