Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Í kjölfar þess verður tveggja daga stopp á meðan skipt verður um togvíra. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra. „Aflinn sem við lönduðum í gær var að mestu þorskur sem við fengum á Pétursey og Vík. Það hefur verið góður afli á þessum slóðum að undanförnu og við höfum landað fullfermi tvisvar í viku. Mér líst býsna vel á framhaldið. Næst munum við halda austur og reyna við ýsu og ufsa. Við sjáum til hvernig það mun ganga,“ segir Jón.