Vestmannaey VE bundin við bryggju í Eyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Eins og svo oft áður lönduðu ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE fullfermi í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag, Bergur um morguninn og Vestmannaey um kvöldið. Afli Bergs var að mestu ýsa, ufsi og þorskur en afli Vestmannaeyjar mest ýsa og þorskur. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að túrinn hafi verið ágætur. „Þetta var fimm sólarhringa túr sem er í lengri kantinum, enda fórum við austur fyrir land og það tekur tíma að sigla fram og til baka. Við byrjuðum á Ingólfshöfðanum og þar var ufsarjátl sem gleður menn mjög. Síðan keyrðum við á Breiðdalsgrunn þar sem fyrst og fremst fékkst ýsa. Síðan var haldið vestur og restin tekin á Pétursey. Það var norðanfræsingur fyrir austan en mun skárra vesturfrá,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lætur einnig vel af fiskiríinu. „Þessi túr gekk bara vel. Megnið af tímanum vorum við á Breiðdalsgrunni og í Berufjarðarál fyrir austan en síðan var komið við á Höfðanum. Veðrið var frekar rysjótt og nú er brælustopp,“ segir Birgir Þór.

Óvíst er hvenær skipin halda til veiða á ný vegna veðurs.