Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í heimahöfn í Eyjum í gær. Skipstjórarnir, Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey og Ragnar Waage Pálmason á Bergi, létu vel af veiðinni. Bæði skip hófu veiðar á Síðugrunni en fengu síðan megnið af aflanum á Öræfagrunni. Aflinn var mest ýsa en nokkuð af þorski með. Veitt var í ágætu veðri. Skipin héldu bæði til veiða á ný í gær.
Þá er Gullver NS að landa nánast fullfermi á Seyðisfirði í dag eða 112 tonnum. Skipstjóri í veiðiferðinni var Hjálmar Ólafur Bjarnason. Hjálmar segir að vel hafi gengið að veiða en það sé þó breytilegt eftir tegundum. „ Það var víða farið í þessum túr, eða frá Litladýpi og vestur á Síðugrunn. Þetta var semsagt dálítil yfirferð. Aflinn er að mestu þorskur og ýsa og síðan dálítið af karfa. Segja má að við höfum verið á flótta undan ýsu allan túrinn. Það var ítrekað leitað að ufsa með dapurlegum árangri og við hittum illa á karfa. Það er hins vegar ýsa úti um allt,“ segir Hjálmar Ólafur.
Gullver mun halda á ný til veiða síðdegis á miðvikudag.