Í þessum mánuði hafa verið haldnir fundir með starfsmönnum Síldarvinnslunnar um drög að nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins og öryggismál. Alls hafa verið haldnir fimm fundir og verður sá sjötti og síðasti væntanlega haldinn á næstu dögum.
Á fundunum var fjallað um stefnudrögin og á þeim var starfsmönnum gefið tækifæri til að tjá sig um þau. Hin nýju drög byggja að verulegu leyti á starfsmannaviðtölum sem tekin voru sl. sumar og starfsánægjukönnun sem gerð var sl. haust. Í drögunum er lögð aukin áhersla á heilsu og öryggi og því var sérstaklega fjallað um þann þátt á kynningarfundunum. Nýja stefnan gerir ráð fyrir heildstæðu öryggiskerfi innan fyrirtækisins og er þar lögð áhersla á skipan öryggisnefnda í öllum deildum, öryggisráð sem hefur yfirumsjón með málaflokknum og síðan ráðningu öryggisstjóra.
Að sögn Sigurðar Ólafssonar, sem unnið hefur að gerð stefnunnar, og Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra sköpuðust góðar umræður á fundunum og komu þar fram gagnlegar ábendingar og athugasemdir sem leitast verður við að taka tillit til. Eftir er að kynna stefnudrögin fyrir skipverjum frystitogarans Barða NK en að þeirri kynningu lokinni mun stjórn Síldarvinnslunnar taka þau til umfjöllunar og afgreiðslu. Gera má ráð fyrir að ný starfsmannastefna geti tekið gildi í næsta mánuði.