Á netmiðli norska sjávarútvegsblaðsins Kystmagasynet birtist nýverið grein sem útskýrir hvers vegna Íslendingar og reyndar einnig Grænlendingar eigi ekki aðild að nýgerðum samningi Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar. Aðrir fjölmiðlar í Noregi sem fjalla um sjávarútvegsmál hafa síðan vitnað í umrædda grein og birt innihald hennar eins og hvern annan stórasannleik. Í umfjöllun Kystmagasynet um þetta mikilvæga mál er sérstaklega fjallað um Síldarvinnsluna og vægast sagt stórfurðulegar upplýsingar veittar um stöðu og starfsemi fyrirtækisins. Hér á eftir verða birt nokkur orðrétt brot úr viðkomandi grein og síðan bent á augljósar rangfærslur í henni.
Eftirfarandi skýring er gefin á því að Íslendingar og Grænlendingar eigi ekki aðild að umræddum makrílsamningi:
„Grænlensk og íslensk útgerðarfyrirtæki hafa fjárfest svo mikið í aukinni veiðigetu að samningur sem minnkar möguleika þeirra til makrílveiða mun leika þau grátt. Þess vegna þjónar það ekki hagsmunum Íslendinga að gerður sé samningur sem takmarkar makrílveiðar þeirra“.
Á öðrum stað í greininni segir:
„Kystmagasynet.no hefur áður skrifað um grænlenska „rannsóknarkvótann“ sem hefur nú í ár verið aukinn úr 60.000 tonnum í 100.000 tonn. Á sama tíma hefur íslenska útgerðarfyrirtækið, Síldarvinnslan, til viðbótar við hin íslensku uppsjávarskip sín, mörg grænlensk uppsjávarskip í rekstri. Nokkur þessara skipa hafa verið keypt frá Noregi eins og greint hefur verið frá áður. Eitt þessara skipa, hin grænlenska Erika, var nú í vikunni í Las Palmas á leið sinni til Nouadibou í Máritaníu. Þar á skipið, sem er 57 metra langt og byggt 1978, að taka þátt í óvissuveiðum á sardínellu og sardínu. Síldarvinnslan veitir sjálf þær upplýsingar að hún starfræki fiskiðjuver fyrir uppsjávarfisk og bolfisk, þrjár fiskimjölsverksmiðjur, einn frystitogara og sex uppsjávarskip. Á netinu koma ekki fram upplýsingar um hvort þarna séu meðtalin grænlensku uppsjávarskipin, þar á meðal Erika, sem nú skal veiða úti fyrir ströndum Máritaníu…
Fyrir Síldarvinnsluna og önnur íslensk og grænlensk útgerðarfyrirtæki mun samningur um kvóta leiða til hundruð milljóna króna taps. Það munu fyrirtækin, sem byggt hafa upp hina miklu veiðigetu, ekki þola. Að senda skip til veiða við Máritaníustrendur er hluti af neyðarráðstöfunum fyrirtækjanna.“
Látum þetta nægja af orðréttum tilvitnunum í umrædda grein en hér skal vikið að nokkrum augljósum rangfærslum sem fram koma í henni:
- Það er rangt að íslensk fyrirtæki hafi fjárfest mikið í uppsjávarskipum að undanförnu. Íslendingar hafa keypt notuð góð skip frá Noregi á meðan Norðmenn hafa verið að fá ný skip. Þá eru einungis tvö skip í íslenska flotanum yngri en tíu ára gömul. Það alrangt að veiðigeta íslenska flotans hafi aukist verulega á undanförnum árum og þá er rétt að halda því til haga að fjárfesting norskra fyrirtækja í nýjum uppsjávarskipum er margföld á við fjárfestingar íslenskra fyrirtækja og við blasir að þar er um offjárfestingu að ræða.
- Síldarvinnslan gerir út tvö uppsjávarskip, Börk og Beiti. Að auki á fyrirtækið Birting sem einungis er gerður út þegar hin skipin tvö eiga erfitt með að ná útgefnum kvóta. Þá á Síldarvinnslan hlut í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni hf. á Akranesi sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson. Hvaðan norski fjölmiðillinn fær upplýsingar um að Síldarvinnslan eigi sex uppjávarskip er ráðgáta.
- Síldarvinnslan á þriðjungs hlut í grænlenska útgerðarfélaginu Polar Pelagic (áður East Greenland Codfish AS) og hefur átt þann eignarhlut frá árinu 2003. Polar Pelagic á og rekur eitt uppsjávarskip, Polar Amaroq (áður Gardar). Uppsjávarskipið Erika var áður í eigu þessa fyrirtækis en var selt til Marokkó snemma árs 2013 og hefur Síldarvinnslan eða tengd félög ekkert með það skip að gera í dag. Hingað til hafa önnur íslensk fyrirtæki ekki átt hlut í grænlenskum uppsjávarfyrirtækjum. Það er því fráleitt að Síldarvinnslan eigi hlutdeild í rekstri margra grænlenskra fiskiskipa eins og gefið er til kynna.
- Það er óskiljanlegt þegar því er haldið fram að Íslendingar telji það geta þjónað fyrirtækjum í sjávarútvegi að stunda ótakmarkaða veiði eða ofveiði. Slíkar veiðar byggja á skammtímasjónarmiðum sem standast enga skoðun.
Áðurnefnd grein í Kystmagasynet er óvönduð og villandi og ber þess vitni að umfjöllun um íslenskan sjávarútveg í norskum fjölmiðlum sé ekki alltaf málefnaleg og sanngjörn. Ef til vill er full ástæða til að koma á framfæri leiðréttingum og réttum upplýsingum til þeirra fjölmiðla í Noregi sem fjalla sérstaklega um sjávarútveg og draga upp neikvæða mynd af Íslendingum sem sjávarútvegsþjóð.
Varðandi makrílinn leggur Síldarvinnslan áherslu á ábyrga og sjálfbæra nýtingu á þeim stofni sem og öðrum fiskistofnum. Það er hagur allra sem eiga eitthvað undir nýtingu fiskistofna að sú nýting fari fram með sjálfbærum og ábyrgum hætti og að hún sé ávallt byggð á vísindalegri ráðgjöf út frá bestu fáanlegu gögnum.