Börkur NK að landa síld í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Þegar starfsemi Síldarvinnslunnar er rýnd og umhverfisáhrif félagsins greind er ljóst að langstærsti einstaki umhverfisþáttur starfseminnar er eldsneytisnotkun fiskiskipa. Á árum áður notuðu fiskimjölsverksmiðjur félagsins mikið af eldsneyti við keyrslu en eldsneytisnotkun þeirra hefur dregist saman eftir umfangsmiklar fjárfestingar í rafvæðingu verksmiðjanna.

Skip félagsins nota mikið eldsneyti og það er ekki komin fram raunhæf lausn um orkuskipti fiskiskipa. Við endurnýjun fiskiskipaflotans hefur verið lögð áhersla á sparneytnari skip og lögð er áhersla á að skip félagsins séu keyrð á hagkvæman hátt og olíunotkun lágmörkuð. Með stærri og nýrri skipum, sem geta borið meiri afla að landi næst hagkvæmi í eldsneytisnotkun á veitt tonn þar sem oft þarf að sigla langa leið til að sækja aflann. Aðstæður við veiðar eru þó breytilegar og getur göngumynstur stofna breyst milli ára. Sú vegalengd sem þarf að sigla til og frá miðum hefur mikil áhrif á eldsneytisnotkun og eins hvernig veiðar ganga. Síldarvinnslan hefur á síðustu árum skipt út svartolíu sem inniheldur mikið af brennisteinsefnum fyrir gasolíu.

Um 300 þúsund lítrar af olíu sparast á ári


Mjög mikilvægt umhverfisverkefni er nú í undirbúningi hjá Síldarvinnslunni.  Félagið hefur fjárfest í rafmangsbúnaði til að landtengja uppsjávarskip meðan þau landa hráefni í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Búnaðurinn verður notaður fyrir skip Síldarvinnslunnar og  önnur uppsjávarskip sem landa í Neskaupstað og sem eru með búnað um borð til að tengjast landtengingunni.  Vonir standa til að þessi búnaður til að landtengjast verði tilbúinn til notkunar í júlí árið 2021. Skipin munu því ekki brenna olíu á meðan á löndun stendur eins og verið hefur í áraraðir. Gert er ráð fyrir að þessi aðgerð muni spara um 300 þúsund lítra af olíu á ári.  Hér er því á ferðinni stórt og mikilvægt verkefni sem mun minnka olíunotkun félagsins og þar með hafa mikil jákvæð umhverfisáhrif. 

Um þetta er fjallað í nýlegri samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar sem finna má hér