Starfsfólk á skrifstofu Síldarvinnslunnar var sérlega móttækilegt fyrir fróðleiknum eftir allar kræsingarnar í Gdansk. Ljósm. Sigurður Ólafsson

Í vikunni voru fluttir tveir fyrirlestrar um næringu og mataræði fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Berglind Lilja Guðlaugsdóttir næringarfræðingur fræddi fólk um fyrstu skrefin í átt að heilsusamlegra mataræði, ráðlagði um næringu, kúra og mýtur um mataræði, ásamt því að fjalla um hvernig má setja saman næringarríkar og hollar máltíðir. Fyrirlesturinn var fluttur bæði á íslensku og ensku og verður hann aðgengilegur næstu tvær vikurnar fyrir allt starfsfólk, en hlekkur á fyrirlesturinn verður sendur í tölvupósti. Starfsfólk á skrifstofunni kom saman til að horfa á fyrirlesturinn og naut hans vel. „Þetta var góð tímasetning fyrir svona fyrirlestur“, segir Sigurður Ólafsson verkefnastjóri. „Það er flott að ná manni á lágpunkti eftir nokkurra daga sukk í Gdansk. Maður var sérlega móttækilegur fyrir boðskapnum. Að öllu gamni slepptu var fyrirlesturinn mjög góður og maður var rækilega minntur á að það þurfa ekki vera einhver geimvísindi að borða hollari mat og hugsa betur um sig. Það er samt ótrúlega auðvelt að missa mataræðið í eitthvað rugl, enda ótal töfralausnir sem misgáfulegir aðilar reyna að selja manni og því gott að fá upprifjun á grundvallaratriðum um næringu og mataræði.“