Goran Lukic hefur starfað hjá Vísi frá árinu 2000

Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Goran Lukic er frá Belgrad í Serbíu og kom fyrst til Íslands árið 1997. Í Serbíu starfaði hann sem atvinnumaður í knattspyrnu auk þess sem hann rak lítið kaffihús. Upphaflega kom hann til Íslands til að leika knattspyrnu hjá Víði í Garði og þar var hann í þrjú keppnistímabil. Að því kom að hann færði sig um set og hóf að leika með Grindavík árið 2000 og þá hóf hann að vinna við saltfiskverkun hjá Vísi hálfan daginn. Síðar lék Goran með Haukum, Stjörnunni, aftur með Víði og loks með Stál-Úlfi. Þá þjálfaði hann meistaraflokk kvenna hjá Grindavík og yngri flokka hjá Njarðvík og Haukum.

Þegar Goran er spurður að því hvort honum hafi strax liðið vel á Íslandi stendur ekki á svari. “Já, mér líkaði strax vel á Íslandi og kynntist strax mörgum í gegnum fótboltann. Þá var ég strax ánægður í vinnunni hjá Vísi. Ég hef nú unnið hjá Vísi í 24 ár og þar hef ég eignast marga góða vini. Hjá Vísi vinnur gott fólk og þar eru góðir stjórnendur. Það hefur aldrei hvarflað að mér að skipta um vinnustað. Árið 2018 keyptum við, ég og sambýliskona mín, hús í Grindavík og við höfðum búið í því í sex ár þegar ósköpin dundu yfir seint á síðasta ári. Sambýliskona mín er pólsk og við erum bæði óvön jarðskjálftum og eldgosum. Hamfarirnar hræddu marga og það var áfall að þurfa að yfirgefa bæinn í nóvember. Við fengum húsnæði á Selfossi tímabundið en erum nú að festa kaup á húsi í Garðinum. Vísir hefur flutt saltfiskverkunina til Helguvíkur og þá er hentugt að búa í Garði. Það gengur vel að vinna saltfiskinn í Helguvík. Við erum að vinna þar 35 – 40 tonn á dag og fólk er ánægt á vinnustaðnum. Ég stefni að því að vinna áfram hjá Vísi. Vísir er fyrirtæki sem hefur reynst mér afskaplega vel.”

Eftir að þetta viðtal var tekið hófst á ný saltfiskvinnsla í Grindavík á vegum Vísis.