Í gær var verið að frysta loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Bæði var fryst á Rússland og Japan; karlinn á Rússland og hrognafull kerlingin á Japan. Þegar tíðindamann bar að garði voru þau Líneik Haraldsdóttir og Japanirnir Kusa og Shimozawa að skoða sýnishorn af loðnunni. Kusa sagðist vera yfir sig ánægður með loðnuna sem bærist að landi þessa dagana. „Þetta er frábær loðna og einmitt eins og við viljum hafa hana,“ sagði Kusa. „Hrognafyllingin er 23-24% og loðnan flokkast afar vel. Þetta er mun betri loðna en við fengum á vertíðinni í fyrra og þess vegna erum við alsælir,“ sagði Kusa og brosti sínu blíðasta.
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu tekur undir með Kusa og segir að loðnan sem berst að um þessar mundir sé afar gott hráefni. „Vinnslan gengur í reynd eins og best verður á kosið, en nú er þess ekki langt að bíða að hrognavinnsla hefjist,“ sagði Jón. „Það er ekki ósennilegt að hún hefjist um helgina.“
Þegar löndun lauk úr Bjarna Ólafssyni hófst löndun úr Beiti NK og gæði þeirrar loðnu var svipuð. Loðnan flokkast nánast fullkomlega og vinnslan gengur vel.
Bræla var á loðnumiðunum í gær og veður hefur einnig hamlað veiðum í dag. Birtingur landaði fullfermi á Seyðisfirði í gær og þar er verið að landa fullfermi, 2.500 tonnum, úr Berki. Í gær og fyrradag lönduðu Vilhelm Þorsteinsson og Polar Amaroq í Helguvík.