Í gær, sunnudaginn 24. febrúar, barst fyrsta loðnan á yfirstandandi vertíð til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík. Það var Vilhelm Þorsteinsson EA sem kom þangað með fullfermi, 2.400 tonn.
Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri í Helguvík, segir að þar birti svo sannarlega yfir mönnum þegar fyrsta loðnulöndunin á sér loks stað enda hafi starfsmenn verksmiðjunnar beðið í töluverðan tíma eftir því að hlaðið loðnuskip komi í höfnina. Í verksmiðjunni í Helguvík eru 10-12 fastir starfsmenn en á vinnslutíma fjölgar starfsmönnunum og eru þeir þá um 20 talsins. Allir starfsmennirnir eru reynslumiklir og hefur vinnslan í verksmiðjunni gengið vel á fyrri vertíðum.
Á síðustu vertíð var tekið á móti um 42.000 tonnum af loðnu í Helguvík en sýnt þykir að magnið verður mun minna á þessari vertíð. Kvótinn á yfirstandandi vertíð er minni en á þeirri síðustu, loðnan hefur verið dreifðari og veðráttan ekki nægilega hagstæð til veiða. Allir þessir þættir stuðla að því að Helguvíkurverksmiðjan mun fá minna í sinn hlut. Í fyrra barst fyrsta loðnan til Helguvíkur hinn 8. febrúar en nú ekki fyrr en liðlega hálfum mánuði síðar.