Hákon EA kom með fyrstu loðnuna til Helguvíkur aðfaranótt laugardags. Ljósm. Eggert Ólafur EinarssonHákon EA kom með fyrstu loðnuna til Helguvíkur aðfaranótt laugardags.
Ljósm. Eggert Ólafur Einarsson
Aðfaranótt laugardags barst fyrsta loðnan á vertíðinni til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík. Það var Hákon EA sem þá landaði 630 tonnum. Polar Amaroq kom síðan til Helguvíkur í morgun með 2.500 tonn og er verið að landa úr honum. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri var glaður í bragði þegar heimasíðan sló á þráðinn til hans í morgun og sagði hann að verksmiðjan hefði verið gangsett í gærmorgun. „Við erum afskaplega glaðir þegar við fáum fyrsta farminn og hefjum vinnslu. Á loðnuvertíðinni í fyrra fengum við einungis um 3.300 tonn en um 30.000 tonn árið 2015. Hér eru menn bjartsýnir og trúa því að kvótinn náist ef veður helst þokkalegt. Við vorum ekki bjartsýnir í janúar þegar allt benti til að engin loðnuvertíð yrði en nú er það breytt. Þetta er semsagt vertíðin sem aldrei átti að koma og því geta menn ekki annað en verið glaðir,“ sagði Eggert.