Samkoman í Safnahúsinu var vel sótt. Ljósm. Smári GeirssonSamkoman í Safnahúsinu var vel sótt. Ljósm. Smári GeirssonÍ gær hélt Síldarvinnslan samkomu í Safnahúsinu í Neskaupstað til að minnast þess að þá voru liðin 60 ár frá því að fyrst var tekið á móti síld til vinnslu í síldarverksmiðju fyrirtækisins. Eins var greint frá því á samkomunni að fyrirhugað er að efna til samkeppni um gerð minningarreits á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar, en reiturinn verður helgaður minningu þeirra sem látist hafa í starfi hjá Síldarvinnslunni.
 
Samkoman var vel sótt og mátti sjá marga aðstandendur þeirra sem farist hafa í starfi hjá Síldarvinnslunni á meðal gesta. Smári Geirsson greindi frá aðdraganda stofnunar Síldarvinnslunnar og upphafi starfsemi fyrirtækisins og Gunnþór B. Ingvason fjallaði um fyrirhugaða samkeppni um gerð minningarreits. Þá fluttu Jón Hilmar Kárason gítarleikari og Hildur Þórðardóttir flautuleikari tónlist.
 
Að lokinni kaffidrykkju héldu samkomugestir inn á grunn gömlu síldarverksmiðjunnar og þar minntist Gunnþór B. Ingvason þeirra sem farist hafa í starfi hjá fyrirtækinu. Allar aðstæður voru skoðaðar og virtist gestunum lítast vel á gerð minningarreits á þessum stað.
 
Á næstunni mun samkeppnin um gerð minningarreitsins verða auglýst og vonandi munu margir sjá ástæðu til að skila inn tillögum.
 
Látinna minnst á staðnum þar sem fyrirhugað er að gera minningarreit. Ljósm. Smári GeirssonLátinna minnst á staðnum þar sem fyrirhugað er
að gera minningarreit. Ljósm. Smári Geirsson