Sl. laugardag kom Börkur NK til Neskaupstaðar með fyrstu síldina úr Breiðamerkurdýpi sem þangað hefur borist á vertíðinni. Eins og öllum er kunnugt hefur sáralítið veiðst af síld í Breiðafirðinum upp á síðkastið og þegar Börkur kom með umræddan afla var liðinn hálfur mánuður frá því að síðast barst afli til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Gæftaleysi hefur verið mikið á miðunum fyrir vestan og auk þess hefur lítið fundist þar af veiðanlegri síld þannig að bátarnir hafa reynt fyrir sér á Breiðamerkurdýpi.
Afli Barkar í þessari veiðiferð var 630 tonn. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar verkstjóra í fiskiðjuverinu reyndist síldin úr Breiðamerkurdýpinu vera smærri en sú sem veiðist fyrir vestan en ágætlega gekk þó að vinna hana.
Áhöfn Beitis er nú við síldveiðar í Breiðamerkurdýpi á Birtingi NK en Beitir hefur verið seldur og er farinn í slipp til Danmerkur. Polar Amaroq mun síðan leysa Beiti af hólmi.