Hin nýja netagerð Fjarðanets í NeskaupstaðHin nýja netagerð Fjarðanets í NeskaupstaðSl. mánudag var fyrsta skóflustunga tekin að nýrri netagerð Fjarðanets hf. í Neskaupstað. Netagerðin mun rísa á landfyllingu sem gerð hefur verið austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Nýja netagerðarhúsið mun verða 85 metra langt og 26 metra breitt eða um 2.200 fermetrar að stærð. Það mun hýsa netaverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og veiðarfærageymslu. Húsinu verður skipt í tvennt eftir endilöngu; öðru megin í því verður netaverkstæðið og hinum megin geymsla fyrir veiðarfæri, nætur og troll. Í öðrum enda hússins verður síðan rými fyrir víraverkstæði, gúmmíbátaþjónustuna og skrifstofur auk starfsmannaaðstöðu.
 

Fyrsta skóflustunga að nýju netagerðinni var tekin sl. mánudag. Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri fyrir miðju. Til hægri er Jón Bjarnason netagerðarmeistari og Steindór Björnsson netagerðarmeistari er til hægri. Ljósm. Hákon ErnusonFyrsta skóflustunga að nýju netagerðinni var tekin
sl. mánudag. Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri
fyrir miðju. Til vinstri er Jón Bjarnason
netagerðarmeistari og Steindór Björnsson 
netagerðarmeistari er til hægri. Ljósm. Hákon Ernuson

Framkvæmdir við byggingu hússins munu hefjast á næstu dögum en ráðgert er að þeim ljúki 1. mars á næsta ári. Verktaki er byggingafyrirtækið Nestak ehf. í Neskaupstað.
 
Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun flytjast úr gamla netagerðarhúsinu í þetta nýja hús. Gamla húsið var byggt af miklum stórhug á árunum 1964-1965 en er orðið barn síns tíma. Skip og veiðarfæri hafa stækkað gríðarlega frá því að gamla netagerðin var reist og þörf er á allt annarri aðstöðu en þá var krafist. Sem dæmi má nefna að í Neskaupstað hefur vinna við flottroll að mestu farið fram utan dyra hingað til en með tilkomu nýja hússins verður þeirri vinnu sinnt innan dyra við kjöraðstæður. Reyndar má segja að öll starfsaðstaða í hinu nýja húsi verði eins og best gerist, framleiðslugeta mun aukast og gert er ráð fyrir að starfsemi Fjarðanets á staðnum muni vaxa að umfangi. Þá mun veiðarfærageymslan í nýja húsinu valda byltingarkenndri breytingu en nætur hafa verið geymdar utan dyra til þessa í Neskaupstað.
 
Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, segir að þörfin fyrir nýja netagerð í Neskaupstað sé gríðarleg. „Aðstaða okkar á staðnum hefur verið fjarri því að vera fullnægjandi en með tilkomu nýju netagerðarinnar verður hún til fyrirmyndar.  Við ætlum okkur að bjóða upp á góða þjónustu í framtíðinni og í reyndinni er tilkoma þessa nýja húss forsendan fyrir því að það sé hægt. Starfsemin í Neskaupstað er mikilvægur þáttur í starfsemi Fjarðanets en fyrirtækið hefur einnig starfsstöðvar á Akureyri og Ísafirði,“ segir Jón Einar.