Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með fyrstu sumargotssíldina sem þangað berst á vertíðinni af miðum fyrir vestan land. Afli skipsins var rúmlega 300 tonn og fer hann allur til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra er þarna um þokkalegustu síld að ræða en hún fékkst í fimm holum djúpt út af Faxaflóa. „Það virðist vera lítið af síld þarna á ferðinni þó svo að einn og einn bátur fái eitt og eitt gott hol. Flest hol skipanna eru léleg og stærsta holið okkar var innan við 100 tonn,“ sagði Hálfdan. „Það er ekkert annað að gera en að halda áfram að leita. Eins og er snýst þetta mikið um að vera á réttum stað á réttum tíma. Hafa ber í huga að í fyrra var veiðin einnig afar skrykkjótt framan af en lagaðist svo þegar á leið. Ég trúi því að þetta eigi allt eftir að koma,“ sagði Hálfdan að lokum.