Þátttakendur í fyrstu vinnustofunni um einelti   Ljósm.Hákon ErnusonÞátttakendur í fyrstu vinnustofunni um einelti. Ljósm. Hákon ErnusonMiðvikudaginn 6. apríl var haldin vinnustofa um einelti og áreitni með stjórnendum í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vinnustofan var haldin á Hótel Hildibrand og leiðbeinandi var Sigurður Ólafsson, ráðgjafi. Vinnustofan er liður í innleiðingu á endurnýjaðri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar. Á vinnustofunni var farið yfir ábyrgð stjórnenda í meðferð eineltismála og ræddar aðferðir til að taka á einelti og áreitni með markvissum hætti.  Einnig voru ræddar aðferðir til að minnka líkur á því að einelti komi upp. Það liggur ljóst fyrir að Síldarvinnslan ætlar ekki að líða einelti og áreitni í starfsemi fyrirtækisins heldur vinna skipulega gegn því að slíkt eigi sér stað meðal starfsmanna. Allir stjórnendur hjá Síldarvinnslunni munu sitja sambærilegar vinnustofur til að tryggja sameiginlegan skilning á vandamálinu og aðferðum til að glíma við það. Fljótlega munu stjórnendur um borð í skipunum taka þátt í slíkri vinnustofu og það sama á við um stjórnendur á Seyðisfirði og í Helguvík.
 
Síldarvinnslan mun í tengslum við endurnýjun starfsmannastefnunnar taka ýmis mál fastari tökum en áður og eineltismálin eru þar á meðal.