Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði tæplega 90 tonnum af blönduðum afla á Seyðisfirði í gær. Skipstjóri í veiðiferðinni var Hjálmar Ólafur Bjarnason en hann segir að þetta hafi verið sinn „fyrsti alvörutúr“ sem skipstjóri. „Ég fór að vísu með skipið einn stuttan túr fyrir einu og hálfu ári síðan en ég tel hann vart með. Ég er búinn að vera stýrimaður á Gullver í ein fimm ár og það var ánægjulegt að fá tækifæri til setjast í skipstjórastólinn. Segja má að veiðiferðin hafi gengið þokkalega. Við leituðum að vísu mikið að ufsa en það gekk erfiðlega og eins var lítið um þorsk. Við fengum mest karfa og svo er ýsan út um allt eins og verið hefur. Við fórum víða í þessari veiðiferð. Veitt var í Berufjarðarál, á Papagrunni, Stokksnesgrunni, í Lónsdýpi og í Litladýpi. Þetta var fimm og hálfur dagur að veiðum og það sem skyggði helst á var veðrið. Það töluðu sumir um að þarna hefðu þeir upplifað sína verstu sumarbrælu. Í heilan sólarhring fór hann ekki niður fyrir 20 vindstig,“ segir Hjálmar Ólafur.

Gullver hélt á ný til veiða síðdegis í gær.