Margrét EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 1800 tonn af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson

Margrét EA kom til Neskaupstaðar í morgun með fyrsta kolmunnafarm ársins sem berst til vinnslu hjá Síldarvinnslunni. Afli skipsins í þessari fyrstu veiðiferð á árinu er 1.800 tonn. Heimasíðan ræddi við Hjört Valsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Við fengum þennan afla í fimm holum og tókum reyndar eitt mjög stutt að auki. Það er lengi dregið og einungis tekið eitt hol á dag. Aflinn í hverju holi var frá 250 tonnum og alveg upp í 650 tonn. Þetta voru gjarnan um 300 tonn í holi. Veitt var í færeyskri lögsögu suður af Múnkagrunni og inni í gráa sjónum. Ég held að menn séu sammála um að það sé ekki jafn mikill kraftur í þessum veiðum núna og var á sama tíma í fyrra. Hinsvegar ber að hafa í huga að veiðin getur verið fljót að breytast. Það er mikill fjöldi skipa á miðunum. Þarna er færeyski flotinn og tvö grænlensk skip og samkvæmt samningum mega 15 íslensk skip veiða þarna samtímis. Annars erum við á Margrétinni bara hressir og munum halda jákvæðir áfram kolmunnaveiðunum,“ segir Hjörtur.

Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að hráefnið úr Margréti líti vel út. „Kolmunnaskipin koma með aflann vel kældan að landi og þetta virðist vera mjög gott hráefni til vinnslu,“ segir Hafþór.

Barði NK er á landleið með tæplega 2.000 tonn af kolmunnamiðunum. Er ráðgert að hann komi til Seyðisfjarðar í nótt.