Bó

Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins. Ljósm: Smári Geirsson

                Fyrsti kolmunnafarmurinn á þessum vetri barst til Neskaupstaðar í morgun en þá kom Bjarni Ólafsson AK með 1.800 tonn. Gísli Runólfsson segir að þeir á Bjarna Ólafssyni hafi komið með fyrsta vetrarfarminn í fyrra um sama leyti. „Við héldum til veiða 16. nóvember og til að byrja með fór mikill tími í að leita. Í fyrstu var aflinn tregur. Við vorum að draga í 20 tíma og fengum gjarnan innan við 200 tonn í holi og allt niður í 60 tonn. Síðan fór þetta að ganga betur og í lokaholinu fengum við 300 tonn eftir að hafa dregið í sjö og hálfan tíma. Þarna var veiðin að byrja af einhverju viti. Við fengum aflann norðaustur af Færeyjum og það var samfelld blíða allan túrinn. Þetta var eins og á besta sumardegi, „ segir Gísli.

                Auk kolmunnans hefur íslensk sumargotssíld borist til Neskaupstaðar að undanförnu. Margrét EA landaði um 1.000 tonnum í gær og Börkur NK er að landa 1.300 tonnum.